Barry and his Guitar er klukkutíma langur einleikur,“ segir Bragi Árnason leikari sem setur upp söngleik í Mengi að Óðinsgötu 2 í kvöld klukkan 21.
Sjálfur er Bragi höfundur handrits og tónlistar og allra texta nema eins, sem er gömul velsk vögguvísa. Hann bregður sér líka í hin ýmsu hlutverk. Flutningurinn er á ensku og tekur tæpan klukkutíma.
Bragi frumsýndi söngleikinn Barry and his Guitar í London fyrir ári og hefur flutt hann nokkrum sinnum síðan, meðal annars á Crouch End Festival síðastliðið vor. Áformað er að fara með hann á Edinborgarhátíðina 2015.
Sagan segir af ungum manni sem vinnur á kaffihúsi í Hackney þar sem hann fær að troða upp reglulega en dreymir um að verða poppstjarna. Líf hans tekur óvænta stefnu þegar hann lendir í klóm glæpaklíku eftir að hafa óvart móðgað vitgrannan son glæpakóngsins í Soho.
„Þetta er ævintýri þar sem rómantíkin kemur við sögu og ungi maðurinn lærir sitthvað um sjálfan sig,“ lýsir Bragi. Hann kveðst hafa fengið aðstoð aðstandenda Moors Bar í London og vina sem hafi hjálpað honum að þróa verkið. Við uppsetninguna hér njóti hann fulltingis Heiðars Sumarliðasonar, leikskálds og leikstjóra.
Bragi hefur búið í London í sjö ár við nám og störf. Nú í nóvember ferðaðist hann með fræðslusýningar gegn einelti í breska skóla og nefnir líka bráðfjöruga jólasýningu.
„Oft eru þrjár sýningar á dag, sex daga vikunnar, keyrt á milli, sett upp svið, sungið og dansað,“ lýsir hann.
Fyrir jól frumsýndi Bragi grínleikinn Euromen í Museum of Comedy í London, sem hann skrifaði ásamt Paul Croft. Á sömu sýningu kom fram fjöldi uppistandara frá Bretlandi og Bandaríkjunum.
Bragi lærði fiðluleik við Tónmenntaskólann í Reykjavík og klassískan söng við Tónlistarskóla FÍH. Hann hefur stundað einkanám í gítarleik og komið fram á tónleikum í London og á Íslandi.
Bragi útskrifaðist sem leikari frá Kogan Academy of Dramatic Art 2010. Strax á eftir bauðst honum hlutverk í leikriti Tennessee Williams, Moony‘s Kid Don‘t Cry, í King´s Head Theatre í London.
Hann hefur leikið í söngleikjum, leikhúsuppfærslum, kvikmyndum, stuttmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum og tekið þátt í leiklistarhátíðum á Bretlandi.
Semur, syngur, leikur
