Kvikmyndin Star Wars: The Force Awakens hefur halað inn 517 milljónum Bandaríkjadollara á heimsvísu frá því að myndin fór í sýningu. Það eru tæplega 68 milljarðar íslenskra króna.
Um helgina þénaði Disney-kvikmyndaverið 238 milljónir dollara á myndinni sem gerir þetta stærstu opnunarhelgi sögunnar í Bandaríkjunum.
Fyrra metið átti Universal kvikmyndaverið sem halaði inn 209 milljónum dollara á opnunarhelginni á Jurassic World í sumar. Sú mynd á enn stærstu opnunarhelgi sögunnar á heimsvísu en Universal tók þá inn 525 milljónir dollara. Star Wars myndin verður frumsýnd í Kína þann 9. janúar og hefði líklega tekið það met ef myndin hefði verið sýnd þar um helgina.

