Enginn ætti þó að yfirgefa salinn vonsvikinn.
Myndin lítur stórkostlega út og sem og hljóðið og þá sérstaklega tónlistin sem er frábær. J. J. Abrams, sem leikstýrði myndinni og skrifaði hana með þeim Lawrence Kasdan og Michael Arndt, hefur hér gert Star Wars mynd eftir upprunalegu formúlunni með nýju ívafi.
Í myndinni má finna fjölmargar vísanir í gömlu myndirnar, þó það séu ekki nema lítil vélmenni í bakgrunni eða skringilegar geimverur á skuggalegum geimbar. Abrams hefur sagt að hann reyndi eftir mesta megni að forðast tölvugerða graffík. Það er þó nánast ómögulegt á okkar tímum en graffík myndarinnar sem og þrívídd kemur vel út.
Sviðsmyndir Force Awakens minna einnig á gömlu myndirnar á skemmtilegan hátt, enda voru þær flestar byggðar, en ekki tölvugerðar. Án þess að spilla nokkuð fyrir söguþræði myndarinnar er þó eitt sem vakti athygli undirritaðs og fólk hefur verið að velta fyrir því sér í nærri því 40 ár. Af hverju eru vondu karlarnir í Star Wars svo bersýnilega á móti handriðum á hættulegum stöðum?
Mynd átta verður frumsýnd árið 2017 og er henni leikstýrt af Rian Johnson, sem er hvað þekktastur fyrir Looper. Á næsta ári fáum við þó að sjá myndina Rogue One: A Star Wars Story, sem fjallar um hóp uppreisnarmanna sem stela teikningunum af Helstirninu.
Star Wars: The Force Awakens ætti að henta ungum sem öldnum aðdáendum Star Wars og jafnvel fólki sem aldrei hefur séð Star Wars mynd, ef slíka manneskju er hægt að finna einhversstaðar.