Erlent

Dregur úr fjölda flóttamanna í fyrsta sinn á árinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Grískir sjómenn aðstoða flóttafólk við að koma að landi á Lesbos í Grikklandi.
Grískir sjómenn aðstoða flóttafólk við að koma að landi á Lesbos í Grikklandi. Vísir/EPA
Fjöldi flóttamanna sem lögðu leið sína frá Tyrklandi til Grikklands fækkaði um meira en þriðjung í síðasta mánuði. Það er í fyrsta sinn á árinu sem það gerist, en Sameinuðu þjóðirnar rekja fækkunina til veðurfars og átaks yfirvalda í Tyrklandi gegn smyglurum.

Í heildina fóru 140 þúsund flóttamenn þessa leið í nóvember, sem er 36,5 prósenta lækkun frá október. Þann mánuð komu reyndar rúmlega 220 þúsund flóttamenn að ströndum Evrópu og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þetta kemur fram í frétt AFP fréttaveitunnar.

Það sem af er árinu hafa rúmlega 886 þúsund flóttamenn komið til Evrópu. Vitað er til þess að 3.515 manns hafi látið lífið við að fara yfir Miðjarjarhafið.

Fyrir tveimur dögum samþykktu forsvarsmenn Evrópusambandsins að styrkja Tyrki um þrjá milljarða evra vegna flóttamannavandans þar í landi. Þar halda nú meira en tvær milljónir Sýrlendinga til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×