Glamour tók saman nokkra skemmtilega hluti til að gera innandyra á meðan óveðrið gengur yfir, svo engum þurfi nú að leiðast.

Á meðan það er ekki orðið rafmagnslaust er tilvalið að baka. Það er sennilega fátt notalegra en að kúra undir teppi og borða nýbakaðar smákökur.

Eitt af því sem maður nennir aldrei að gera, er að bæta við nýrri tónlist á hlaupaplaylistann, svo það er fullkomið að nýta tímann á meðan óveðrið gengur yfir og betrumbæta hann. Þá getum við látið okkur hlakka til að mæta á brettið með nýja tóna í eyrunum.

Notaðu tímann, lærðu ný trix og fáðu innblástur fyrir jóla-og áramótaförðunina. Á Youtube er að finna ógrynni af kennslumyndböndum meðal annars frá Pixiwoo systrunum, Lindu Hallberg, Lisu Eldridge og Charlotte Tilbury.

Ef rafmagnið er ekki farið af, slökktu þá flest ljósin, settu á þig andlitsmaska, leggstu niður og slakaðu á. Á youtube og spotify er hægt að finna góða slökunartónlist sem við mælum með að setja á og láta desember stessið líða úr þér.

Dekraðu við þig og taktu sjálfa þig í hand- og fótsnyrtingu. Skelltu einni góðri bíómynd eða þætti á skjáinn svona rétt á meðan lakkið er að þorna.

Komdu þér vel fyrir í sófanum og settu góða jólamynd í tækið. Ef jólaskapið er ekki mætt á svæðið þá gerði Glamour lista yfir nokkrar góðar tískumyndir, en þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.