Friðþór notar ekki aðeins ritaðar heimildir heldur hefur tekið viðtöl við setuliðsmenn og Norðlendinga sem muna eftir hersetunni í sinni heimabyggð. Skyldu þeir aldrei hafa óttast loftárásir óvinaherja?
„Varúðin gegn því var mest áberandi hér í Reykjavík þar sem stjórnvöldum rann mest blóðið til skyldunnar. En þegar þýskar flugvélar sáust á lofti áttu verðir stundum í mestu vandræðum með að koma Íslendingum niður í loftvarnarbyrgi því þeir voru uppteknir af því að horfa á flugvélarnar og fylgjast með aksjóninni.“
Á Reykjum í Hrútafirði féll skólahald niður í þrjú ár vegna hersetunnar.
„Skólastjórninni var tilkynnt að breski herinn mundi reisa búðir í grennd við skólann. Hún stakk upp á að hann leigði skólahúsnæðið því skólahald mundi ekki fara saman við hersetuna. Skólanum var svo skilað nýmáluðum og dúklögðum þegar herinn fór sumarið 1943.“

„Siglingin var liður í æfingaáætlunum herliðsins,“ segir hann. „Lífið gekk út á að þjálfa sig fyrir ferðina sem vonandi yrði aldrei farin. En hún var farin 1944 þegar innrásin var gerð í Normandí og þar voru notaðir sams konar bátar til að komast yfir ár og síki.“
Fjölmargar myndir eru í nýju bókinni.
„Fyrir nokkrum árum gerði ég rannsókn á myndasöfnum bresku og bandarísku herjanna og skráði þau. Það var mikill fengur að finna þar áhugaverðar myndir sem ég hef notað í mínar bækur og útvegað mörgum öðrum myndir í rit og ýmsa umfjöllun.“
Í fyrri bókum Eyþórs um sama efni koma Hvalfjörður, Austurland, Keflavík og Kópavogur við sögu. Ætlar hann að skrifa fleiri? „Ég gæti hugsað mér að gera bók um Reykjavík og Mosfellssveit. Þetta efni hefur löngum verið áhugamál hjá mér og það er gaman að róta í því þegar tækifæri er til.“