Erlent

ESB styrkir Tyrki um 420 milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Angela Merkel, Ahmet Davuloglu og Francois Hollande í Ankara í Tyrklandi í dag.
Angela Merkel, Ahmet Davuloglu og Francois Hollande í Ankara í Tyrklandi í dag. Vísir/EPA

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa komist að samkomulagi við yfirvöld í Tyrklandi um styrk vegna flæðis flóttamanna til Evrópu. ESB mun veita Tyrkjum þrjá milljarða evra, rúmir 420 milljarðar króna, til að ná tökum á ástandinu þar í landi.

Það sem af er þessu ári hafa meira en 720 þúsund flóttamenn komið til Evrópu og langflestir þeirra fóru í gegnum Tyrkland til Grikklands. Fjármagninu verður varið í að herða eftirlit með landamærum Tyrklands og til þess að reka flóttamannabúðir í Tyrklandi, samkvæmt frétt BBC.

Samkomulagið mun þar að auki gera Tyrkjum kleift að ferðast til ESB-ríkja án vegabréfsáritunar, eins og Tyrkland væri í Schengen samstarfinu, eftir október á næsta ári. Tyrkir þurfa þó að fylgja ákveðnum skilyrðum til að svo verði.

Ahmet Davuloglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði daginn vera sögulegan í samskiptum ESB og Tyrklands. Hann sagði að hingað til hefðu varið átta milljón dölum, um þúsund milljarðar króna, vegna fjölda flóttamanna.

„Við höfum þurft að borga fyrir að kerfi Sameinuðu þjóðanna hefur brugðist vegna ástandsins í Sýrlandi,“ sagði Davuloglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×