Fótbolti

Zlatan hefur aldrei skorað á móti Dönum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í leik á móti Dönum.
Zlatan Ibrahimovic í leik á móti Dönum. Vísir/Getty
Það er bara einn Svíi sem er kominn inn á Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi og það er Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins. Sænska landsliðið færi tækifæri til að breyta því í komandi umspilsleikjum við Dani.

Svíar og Danir mætast tvisvar á næstum dögum, fyrst á Friends Arena í Solna á laugardagskvöldið og svo á Parken í Kaupmannahöfn þremur dögum síðar.

Zlatan Ibrahimovic verður í sviðsljósinu í þessum umspilsleikjum Svía og Dana en það er ein staðreynd sem Svíar hafa áhyggjur af í aðdraganda leikjanna.

Stærsta knattspyrnustjarna Svía undanfarin áratug á nefnilega enn eftir að finna netmöskvana á móti danska landsliðinu.

Zlatan Ibrahimovic hefur sex sinnum spilað á móti Dönum en aldrei náð að skora í þessum leikjum.

Zlatan Ibrahimovic er markahæsti sænski landsliðsmaðurinn frá upphafi með 59 mörk í 109 landsleikjum. Hann hefur skorað á móti Noregi, Íslandi, Finnlandi og Færeyjum en aldrei á móti Dönum. Zlatan hefur líka skorað á móti Englandi, Spáni, Frakklandi og Þýskalandi en nú er að sjá hvort hanni nái að brjóta ísinn á móti danska landsliðinu.

Zlatan er búinn að skora 8 mörk í 10 leikjum með sænska landsliðinu í undankeppninni og það voru bara Pólverjinn Robert Lewandowski og Þjóðverjinn Thomas Müller sem skoruðu fleiri mörk en hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×