Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi framherji Manchester United, var í dag kynntur sem nýr þjálfari Molde, en hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við uppeldisfélag sitt.
Þetta er í annað sinn sem Solkskjær tekur við Molde, en hann stýrði liðinu til síns fyrsta meistaratitils á sínu fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari árið 2011. Hann vann deildina svo aftur ári síðar.
Velgengni hans í Noregi og leikmannaferill á Englandi varð til þess að hann fékk knattspyrnustjóra starfið hjá Cardiff þegar velska liðið spilaði í ensku úrvalsdeildinni 2014.
Norðmaðurinn átti dapra tíma hjá Cardiff þar sem hann féll með liðið og var svo rekinn snemma á næstu leiktíð þegar Cardiff byrjaði illa í B-deildinni.
Solkskjær tók því rólega eftir það og fór að þjálfa unglingalið Clausenengen þar sem sonur hans spilar. Clausenengen kom til Íslands til að spila á Rey Cup í sumar og var Solskjær með í för.
Solskjær tekur við starfinu af Erling Moe sem hefur stýrt Molde síðan Tor Ole Skullerud var rekinn í byrjun mánaðarins. Skullerud gerði eins og Solskjær og vann deildina í fyrstu tilraun á síðustu leiktíð og bætti bikarnum við.
Molde er í sjöunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar, en árangur liðsins þykir ekki nógu góður og var Skullerud því látinn fara.
Solskjær fer strax af stað með Molde-liðið, en hann stýrir því í Evrópudeildinni gegn Celtic á heimavelli annað kvöld.
Molde byrjar vel í Evrópudeildinni, en liðið er í fyrsta sæti með fjögur stig í ansi erfiðum riðli. Það er búið að gera 1-1 jafntefli við Ajax á útivelli og vinna Fenerbache á útivelli.
Solskjær aftur kominn heim til Molde
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið





Benoný Breki áfram á skotskónum
Enski boltinn



„Þér að kenna ef við vinnum ekki deildina“
Enski boltinn

