Slóvenski herinn hefur verið kallaður út til að taka á móti þeim þúsundum flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins á næstu dögum. Leiðtogar landsins hafa gefið út að það muni aðeins þjóna sem tímabundið stopp en ekki endanlegur áfangastaður flóttafólksins. Þetta kemur fram á BBC.
Forsætisráðherrann Miro Cerar sagði á blaðamannafundi að hermennirnir kæmu til með að hjálpa til við flutning og tæknilega aðstoð flóttamannanna. Tæplega 3.000 flóttamenn komu til landsins í dag og hefur fimmtungur þeirra haldið för sinni áfram til Austurríkis.
„Við reynum að haga málum þannig að ástandið komi ekki niður á íbúum landsins. Landið verður að virka eðlilega,“ segir Cerar. Síðasta mánuðinn komu um 3.000 flóttamenn til landsins en sú tala tvöfaldaðist nánast í gær.
Gripið var til þessara aðgerða nú eftir að Ungverjar lokuðu landamærum sínum að Króatíu í gær til að stemma stigu við fjölda flóttafólks á leið í landið. Flestir flóttamannanna eru frá Sýrlandi og stefna vestur á bóginn til Austurríkis eða Þýskalands.
Slóvenar kalla herinn út

Tengdar fréttir

Sýrlandsher sækir hart að uppreisnarmönnum
Stjórnarherinn í Sýrlandi hefur með aðstoð rússneskra flugsveita náð umtalsverðu landsvæði af uppreisnarmönnum á undanförnum dögum.

Ungverjar loka landamærum sínum að Króatíu
Króatar beina flóttamönnum til Slóveníu í staðinn sem hefur svarað með því að slökkva á lestum á leið frá nágrannaríkinu í suðri.