Strákarnir hafa verið að æfa og leggja lokahöndina á undirbúninginn fyrir þessa sögulegu leiki en körfuboltalandsliðið hefur aldrei áður komist á stórmót.
Karlalandsliðið í fótbolta er líka að reyna að komast á sitt fyrsta stórmót og körfuboltastrákarnir sendu þeim flotta kveðju í dag.
„Koma svo, áfram Ísland. Þið takið þetta í kvöld og svo sjáumst við í Frakklandi næsta sumar," sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins og liðsfélagar hans tóku síðan vel undir í lok kveðjunnar.
Leikur Hollands og Íslands á Amsterdam Arena hefst klukkan 18.45 að íslenskum tíma og það verður fylgst vel með honum hér inn á Vísi.
Leikvangurinn verður fullur af Íslendingum og hluti þeirra ætlar síðan að halda áfram til Berlínar og styðja við bak körfuboltalandsliðsins.
Það má sjá kveðju körfuboltalandsliðsins hér fyrir neðan.