Króatinn Slaven Bilic, nýr knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, horfði á sína menn vinna auðveldan 3-0 sigur á FC Lusitans frá Andorra í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í gærkvöldi úr stúkunni á Upton Park.
Diafra Sakho skoraði tvö mörk og James Tomkins eitt, en West Ham á nú auðveldan seinni leik fyrir höndum í Andorra og er liðið á leið í aðra umferðina.
Bilic var kynntur fyrir stuðningsmönnum West Ham fyrir leik, en hann lét yfirmann knattspyrnuakademíu félagsins, Terry Westley, stýra liðinu í leiknum á meðan hann horfði úr stúkunni.
„Slaven Bilic sýndi okkur enga virðingu með því að vera ekki á bekknum,“ sagði reiður Xavi Roura, þjálfari Lusitans eftir leikinn.
„Það hryggir mig að svona hlutur gerist í landinu þar sem heiðarleg framkoma í fótbolta var fundin upp. Ætli honum hafi ekki fundist við nógu merkilegir til að taka þátt í leiknum.“
„Ég get vona bara fyrir hönd West Ham að þetta gerist ekki aftur. Hann er þjálfari West Ham þannig ég býst við að sjá hann á bekknum og hann ætti klárlega að koma til Andorra,“ sagði Xavi Roura.
Bilic sýndi okkur enga virðingu
Tómas Þór Þóraðrson skrifar

Mest lesið





Benoný Breki áfram á skotskónum
Enski boltinn



„Þér að kenna ef við vinnum ekki deildina“
Enski boltinn

