Fótbolti

Ísland í 23. sæti á styrkleikalista FIFA | Aldrei verið ofar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurinn á Tékklandi skilar íslensku strákunum upp um 14 sæti á styrkleikalistanum.
Sigurinn á Tékklandi skilar íslensku strákunum upp um 14 sæti á styrkleikalistanum. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í 23. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, sem var gefinn út í morgun. Ísland er í 16. sæti af Evrópuþjóðum á listanum.

Sigurinn á Tékklandi 12. júní síðastliðinn var gríðarlega mikilvægur upp á stöðu Íslands á listanum að gera en íslenska liðið hækkar sig um 14 sæti frá síðasta lista og hefur aldrei verið ofar í sögunni.

Þessi styrkleikalisti er sérlega mikilvægur því hann ræður í hvaða styrkleikaflokki liðin verða þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM 2018 í Rússlandi.

Nú er ljóst að íslenska liðið verður í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í undanriðlana 25. júlí næstkomandi. Ísland hefur aldrei verið í jafn háum styrkleikaflokki þegar kemur að drætti í undanriðla stórmóts.

Ísland er aðeins fimm stigum á eftir Frakklandi sem er í 22. sæti listans en á meðal þekktra fótboltaþjóða sem eru á eftir íslenska liðinu má nefna Úkraínu (27.), Rússland (28.), Bandaríkin (34.), Mexíkó (40.), Kamerún (42.), Serbíu (43.), Tyrkland (48.) og Japan (50.).

Argentína vermir toppsæti styrkleikalistans en Þýskaland dettur niður í 2. sætið. Belgía fellur einnig niður um eitt sæti og í það þriðja en Kólumbía stendur í stað í 4. sætinu.

Þá má geta þess að Wales er komið alla leið upp í 10. sæti listans, aðeins tveimur stigum og einu sæti á eftir Englandi sem er í 9. sætinu og hækkar sig um sex sæti frá síðasta lista. Suður-Ameríkumeistarar Chile eru í 11. sæti og Spánn kemur þar á eftir í 12. sæti.

Efstu 25 löndin á listanum:

1. Argentína

2. Þýskaland

3. Belgía

4. Kolumbía

5. Holland

6. Brasilía

7. Portúgal

8. Rúmenía

9. England

10. Wales

11. Chile

12. Spánn

13. Úrúgvæ

14. Króatía

15. Slóvakía

15. Austurríki

17. Ítalía

18. Sviss

19. Alsír

20. Tékkland

21. Fílabeinsströndin

22. Frakkland

23. Ísland

24. Danmörk

25. Ghana

Listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×