Sport

Serena vandræðalaust í úrslitin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena Williams virðist líkleg til afreka á laugardaginn.
Serena Williams virðist líkleg til afreka á laugardaginn. Vísir/Getty
Serena Williams tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum einliðaleiks kvenna á Wimbledon-mótinu í tennis þar sem hún mun mæta Spánverjanum Garbine Muguruza.

Williams vann nokkuð auðveldan sigur á Mariu Sharapova í undanúrslitunum í dag, 6-2 og 6-4. Þetta var sautjándi sigur Williams á Sharapovu í röð yfir ellefu ára tímabil.

Hún á nú möguleika á því að vinna sitt 21. stórmót á ferlinum en ef hún vinnur úrslitaleikinn á laugardag verður hún ríkjandi meistari á öllum fjórum risamótunum í tennis. Síðast gerðist það árið 2003, hvort sem er í karla- eða kvennaflokki, en þá var það einnig Serena sem afrekaði það.

Aðeins Margaret Court (24) og Steffi Graf (22) hafa unnið fleiri risamótstitla í einliðaleik kvenna.

Muguruza, sem er fædd í Venesúela, er í 20. sæti heimslistans og var að keppa í undanúrslitum á stórmóti í fyrsta sinn á ferlinum í dag. Hún hafði betur gegn Agnieszka Radwanska frá Póllandi, 6-2, 3-6 og 6-3.

„Ég á engin orð til að útskýra þetta,“ sagði hin 21 árs Muguruza. „Ég hef stefnt að þessu allt mitt líf. Ég vissi að þetta yrði erfitt en ég var að spila vel og þurfti bara að halda andliti. En ég var stressuð í öðru settinu. Hún [Radwanska] býr yfir mikilli reynslu og ég þurfti að berjast fyrir sigrinum.“

Serena þykir sigurstranglegri í úrslitaleiknum á laugardag en Muguruza býr þó að því að hafa unnið Williams á Opna franska meistaramótinu í fyrra, strax í annarri umferð.


Tengdar fréttir

Leikar æsast á Wimbledon

Fjórðungsúrslit í einliðaleik karla fara fram í dag. Undanúrslitin hjá konunum hefjast á morgun og þá hefjast beinar útsendingar á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×