Sara Björk Gunnarsdóttir var á skotskónum þegar Rosengård vann öruggan 0-4 sigur á Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Sænsku meistararnir hafa byrjað deildarkeppnina af fítonskrafti en Rosengård hefur unnið alla þrjá leiki sína með markatölunni 13-1.
Svissneski framherjinn Ramona Bachmann skoraði tvö fyrstu mörk Rosengård á fjögurra mínútna kafla í byrjun seinni hálfleiks.
Þýska markamaskínan Anja Mittag skoraði þriðja markið á 60. mínútu eftir sendingu Söru sem skoraði svo fjórða markið tveimur mínútum seinna. Þetta var annað mark Söru í deildinni en hún skoraði einnig í sigrinum á Örebro fyrir tveimur vikum.
Sara með mark og stoðsendingu í stórsigri Rosengard
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
