Fótbolti

Aron Einar kom sólarhring seinna en hinir landsliðsmennirnir

Óskar Ófeigur Jónsson í Astana skrifar
Aron Einar Gunnarsson kom seinna en hinir strákarnir.
Aron Einar Gunnarsson kom seinna en hinir strákarnir. vísir/valli
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, náði ekki fyrstu æfingu íslenska liðsins út í Kasakstan í gær því hann kom ekki fyrr en um sólarhring seinna en restin af liðinu.

„Ég kom í morgun og er bara að reyna að hvíla mig aðeins og gera mig kláran fyrir æfingu á eftir. Þetta er mjög fínt hérna og fínt hótel," sagði Aron Einar Gunnarsson þegar Vísir ræddi við hann á hóteli íslenska liðsins. Hann fagnar því að liðið fór snemma út til Kasakstan en þar er klukkan sex tímum á undan því hún er á Íslandi sem dæmi.

„Þjálfarateymið og strákarnir vildu fara snemma til Kasakstan til að aðlagast. Við erum ekki beint vanir því að spila mótsleiki á gervigrasi þannig að það er fínt að koma aðeins fyrr og venjast kuldanum og gervigrasinu sérstaklega þar sem við erum að fara spila inni," sagði Aron Einar.

„Það er fínt að geta aðlagast hlutunum til að gera þetta almennilega," sagði Aron Einar en íslenska liðið mætir liði Kasakstan á laugardaginn. "Þessar aðstæður eiga ekki að trufla okkur. Það er enn langt í leik og við höfum góðan tíma til þess að aðlagast öll," sagði Aron Einar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×