Rannveig Marta, sem á íslenska móður og slóvenskan föður, hóf nám við Juilliard haustið 2014 eftir að hafa slegið í gegn í umsóknarferlinu þar sem hún flakkaði á milli skóla vestan hafs í von um inngöngu og skólastyrki. Skemmst frá því að segja að hún komst inn í alla skólana og gat valið á milli þeirra.
„Þetta var alveg það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni,“ sagði Rannveig Marta við það tilefni í samtali við Fréttablaðið. Svo fór að hún valdi Juilliard í New York.
Rannveig hefur spilað á fiðlu síðan hún var fjögurra ára en Guðný Guðmundsdóttir, fyrrverandi konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var kennarinn hennar síðustu sex árin hér á landi áður en hún hélt utan í framhaldsnám.