Fótbolti

Hannes Þór: Fagmannlega spilaður leikur eftir markið

Óskar Ófeigur Jónsson í Kazakstan skrifar
Hannes hélt hreinu í dag.
Hannes hélt hreinu í dag. vísir/getty
Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, hélt marki sínu hreinu í fjórða sinn í fimm leikjum í undankeppni EM 2016 í kvöld þegar Ísland vann 3-0 sigur á Kasakstan á Astana-leikvanginum.

„Það er frábær tilfinning að halda hreinu einu sinni enn. Það gefur markmönnum og varnarmönnum alltaf eitthvað auka eftir sigurleiki að ná að halda búrinu hreinu. Þetta er það sem maður sækist eftir í þessu þannig að það er frábær tilfinning fyrir mig að labba frá þessum leik með hreint lak," sagði Hannes.

„Við vorum heppnir í tvö skipti eftir smá darraðadans og það vill nú alveg gerast í fótbolta. Það er ekki alltaf á vísann að róa í þessu. Þetta datt hinsvegar með okkur núna. Þetta var mjög verðskuldaður sigur. Við sköpuðum fleiri færi og þeir sköpuðu ekki mikið. Við verðskuldum því að halda hreinu í dag," sagði Hannes.

„Það var kraftur í þeim í byrjun og mér leyst ekkert alltof mikið á blikuna í upphafi leiks. Þeir komu inn af miklum krafti og það var gríðarlega mikil stemmning á vellinum. Við náðum síðan tökum á leiknum og komum smá ró á þetta. Þetta mark gerði mikið fyrir okkur og þetta var fagmannlega spilaður leikur eftir það," sagði Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×