Fótbolti

PSG spilar með sorgarbönd á móti Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og David Luiz.
Zlatan Ibrahimovic og David Luiz. Vísir/Getty
Leikmenn franska liðsins Paris Saint-Germain munu spila með sorgarbönd í seinni leiknum á móti Chelsea í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en liðin mætast á Brúnni í London á morgun.

Paris Saint-Germain vill með þessu minnast þeirra tíu sem létust í þyrluslysinu í Argentínu en meðal þeirra voru þrjár franskar íþróttastjörnur, Camille Muffat, Alexis Vastine og Florence Arthaud.

Camille Muffat var 25 ára gömul sundkona og vann þrenn verðlaun á Ólympíuleikunum í London árið 2012, þar á meðal ein gullverðlaun. Hún hætti að keppa í sundi á seinasta ári. Alexis Vestine var 28 ára gamall en hann keppti í hnefaleikum og vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Beijing árið 2008. Þá lést einnig siglingakonan Florene Arthaud en hún var 57 ára.

Laurent Blanc, þjálfari franska liðsins, sagði frá því á blaðamannafundi í dag að hann hafi þekkt nokkra af þeim sem fórust í slysinu. „Þetta er sorgartími fyrir alla frönska íþróttahreyfinguna," sagði Laurent Blanc á fundinum.

Paris Saint-Germain og Chelsea gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í París og það stefnir því í mjög spennandi leik annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×