Luis Suarez kann afar vel við sig á Englandi og það tók hann aðeins 15 mínútur að skora fyrsta mark leiksins. Rimma hans og Vincent Kompany í teignum endaði með því að Suarez fékk frítt skot úr þröngu færi. Hann nýtti það með stæl. Joe Hart varnarlaus á línunni.
Suarez reyndar elskar að skora í Englandi og hann skoraði aftur fimmtán mínútum síðar. Sending fyrir, Suarez stekkur á boltann og skorar af stuttu færi.
Eftir að hafa verið yfirspilað í fyrri hálfleik þá reif Man. City sig upp í þeim síðari og fór að gera eitthvað af viti.
Þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum komust þeir inn í leikinn. Sergio Aguero komst þá í boltann inn á teig og lyfti boltanum smekklega í netið.
Vindurinn var svo sleginn úr City nokkrum mínútum síðar. Gael Clichy fékk þá sitt annað gula spjald í leiknum og þar með það rauða.
Í uppbótartíma braut Pablo Zabaleta klaufalega á Lionel Messi og vítaspyrna dæmd. Messi tók vítið sjálfur og lét Joe Hart verja frá sér. Hannn náði frákastinu, fékk opinn skalla með galopið markið en náði á einhvern ótrúlegan hátt að skalla fram hjá.
1-2 lokatölur og City hefur heldur betur verk að vinna í seinni leiknum á Spáni.