Sveitin kynnti þessi áform sín á blaðamannafundi á kínverskum veitingastað í Lundúnum en í dag er nýársdagur samkvæmt kínverska dagatalinu og er ár geitarinnar gengið í garð samkvæmt því.
Í viðtali við breska tímaritið NME í fyrra sagði Damon Albarn, söngvari Blur, frá því að sveitin hefði hljóðritað 15 lög í Hong Kong en eitt af þeim lögum sem verða á plötunni ber heiti Pyongyang en Albarn segir það lýsa upplifun sinni þegar hann fór til Norður Kóreu.

Lonesome Street
New World Towers
Go Out
Ice Cream Man
Thought I Was A Spaceman
I Broadcast
My Terracotta Heart
There Are Too Many Of Us
Ghost Ship
Ong Ong
Mirrorball
Blur gaf síðast út plötuna Think Tank árið 2003 en sveitin átti miklum vinsældum að fagna á tíunda áratug síðustu aldar og barðist við samlanda sína í Oasis um vinsældir. Böndin tvö voru þau allra vinsælustu á meðan Britpop-æðið stóð sem hæst en einhverjir muna kannski eftir þegar sveitirnar gáfu samtímis út smáskífur 12. ágúst árið 1995. Um var að ræða annars vegar Roll With It með Oasis og Country House með Blur. Breska tímaritið NME lýsti þessari útgáfu sem bardaga sveitana um þungavigtarbelti Britpoppsins.
Blur vann þennan bardaga með því að selja 274 þúsund eintök en Oasis 216 þúsund eintök. Fór auk þess Country House í fyrsta sæti vinsældarlista en Roll With It í annað. Þó að Blur hafi unnið þennan bardaga þá átti Oasis eftir að fagna meiri velgegni í plötusölu í náinni framtíð.
Oasis náði til að mynda miklum vinsældum í Bandaríkjunum með lögunum Wonderwall og Champagne Supernova og seldist önnur plata þeirra (What´s the Story) Morning Glory? í fjórum milljónum eintaka á Bretlandseyjum og þriðja mest selda plata Bretlands frá upphafi.
Hér fyrir neðan má heyra eitt laganna af nýju plötunni, Go Out.