„Þetta var svakalegt flott stúdíó, sem var meðal annars með skvassvelli. Við spiluðum gjarnan skvass að upptökum loknum,“ segir Guðbjörg. Húsið sem hýsir stúdíóið var upphaflega byggt af stórleikaranum Charlie Chaplin. „Tito Jackson, bróðir Michaels Jackson, bjó svo til stúdíó í húsinu.“
Noah Georgeson pródúseraði plötuna en hann hefur getið sér gott orð sem samstarfsmaður Devendra Banhart og Johanna Newsom og dvöldu stúlkurnar í Los Angeles í mánuð. „Við sendum Noah skeyti því okkur langaði svo að vinna með honum og fengum svar og kýldum á þetta,“ bætir Guðbjörg við.

„Á fyrstu tónleikunum okkar í Kaupmannahöfn kom ítalskur kaffihúsaeigandi til okkar og bauð okkur til Ítalíu að spila. Fljótlega hafði ítalskur bókari samband við okkur og höfum við í raun verið í ævintýraferð síðan eða í um fimm ár,“ útskýrir Guðbjörg. Þær hafa spilað á tónleikum úti um allan heim undanfarin ár.
Á fyrstu tónleikunum áttu þær bara þrjú lög og því var hjólað í lagasmíðar fyrir Ítalíutúrinn en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. „Við ætlum að fagna útgáfu plötunnar í kvöld á tónleikastaðnum Hannesarholti við Grundarstíg og ætlar Snorri Helgason að hita upp.“
Platan Goes Abroader kemur út á vegum Smekkleysu hér á landi en úti um heim allan á vegum dönsku útgáfunnar Fake Diamond. Sökum ævintýra stúlknanna undanfarin ár má líkja plötunni við eins konar heimsreisu.
Frekari upplýsingar um sveitina má finna hér og miðasala fer fram á midi.is.