Bíó og sjónvarp

Konurnar hrifsuðu toppsætið af Captain America

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Konurnar trekkja að.
Konurnar trekkja að.
Grínmyndin The Other Woman var frumsýnd hér á landi í gær en hún fjallar um þrjár konur sem allar hafa átt vingott við sama, svikula manninn.

Leikkonurnar Cameron Diaz og Leslie Mann eru í aðalhlutverkum ásamt fyrirsætunni Kate Upton. Myndin hefur ekki fengið mikið lof gagnrýnenda en hefur aldeilis trekkt fólk að í kvikmyndahús.

Myndin rakaði inn 24,7 milljónum Bandaríkjadala frumsýningarhelgina, tæpum þremur milljörðum króna. Myndin skaust beint í fyrsta sæti listans yfir myndir sem náðu mestri miðasölu þá helgi og náði toppsætinu af ofurhetjumyndinni Captain America: The Winter Soldier, sem hafði haldið því sæti í þrjár vikur í röð. 75 prósent þeirra sem sáu myndina á frumsýningarhelginni voru konur.

Á uppleið Nicki vill leika meira.
Söngkonan Nicki Minaj fer einnig með lítið hlutverk í myndinni en þetta er hennar fyrsta hlutverk á hvíta tjaldinu. Hún er þó ekki ókunn bíóbransanum því henni bregður fyrir í teiknimyndinni Ice Age: Continental Drift, sem var frumsýnd árið 2012. Nicki segist vilja leika meira og er hvergi nærri hætt.

„Ég fer í prufur og ég er að reyna að finna rétta hlutverkið með rétta leikstjóranum og réttu handritshöfundunum. Mig langar að vera hluti af einhverju frá byrjun næst og ég vil að hlutverkið sé sérsniðið fyrir mig,“ segir Nicki í viðtali við MTV New. Hún segist þó ekki vera að leita sér að stóru hlutverki þessa dagana, enda að vinna að nýrri plötu. 

„Ég er mjög fjölhæf. Stundum langar mig að leika í grínmynd með Will Ferrell og stundum langar mig að leika í mynd í anda Set it Off með öðrum, ungum, þeldökkum leikkonum. Og stundum væri ég til í að leika í X-Men-mynd.“ 

Auk kvennanna fjögurra fara þeir Nikolaj Coster-Waldau og Taylor Kinney með hlutverk í myndinni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×