Lífið

Rétt kom í veg fyrir tískuslys

Harpa Einarsdóttir
Harpa Einarsdóttir Vísir/GVA
„Ég er enn þá að jafna mig,“ segir Harpa Einarsdóttir, fatahönnuður sem hannar undir nafninu Ziska, en hún varð fyrir því óláni að fatalínan hennar sem átti að sýna á Reykjavík Fashion Festival um síðustu helgi í Hörpu, barst ekki til landsins í tæka tíð.

Fatalína hennar er framleidd á Indlandi.

„Ég sendi allt tímanlega til verksmiðjunnar, en gjaldeyrishöftin urðu til þess að greiðslan barst ekki tímanlega. Þannig að verksmiðjan hóf ekki störf fyrr en viku fyrir sýningu sem er allt of seint,“ segir Harpa, sem dó þó ekki ráðalaus.

„Þegar kom í ljós að þetta myndi ekki hafast, viku fyrir sýningu, þá tókum við Selma Ragnarsdóttir klæðskeri aldeilis við okkur. Það voru reyndar tíu flíkur sem voru gerðar hér heima, sem áttu að vera á móti því sem kom frá Indlandi, þannig að þær voru inni í sýningunni. Svo fylltum við bara upp í,“ segir Harpa og hlær.

„Ég hafði náttúrulega engan tíma til að stílísera eitthvað sérstaklega. Við saumuðum allar nætur og til fjögur, nóttina fyrir sýningu. En það var margt gott sem kom út úr þessu, eins og til dæmis hvíti kjóllinn sem hefði aldrei orðið til ef þetta hefði ekki gerst,“ segir Harpa, en hvítur kjóll úr línu hennar vakti sérstaka athygli á sýningunni.

„Við náðum fimmtán innkomum fyrirsæta, sem ég tel bara nokkuð gott!“ segir Harpa að lokum og hlær.

RFF





Fleiri fréttir

Sjá meira


×