Nokkur dæmi eru þó um að tónlistarmenn nái að rífa sig úr viðjum strákasveitanna og njóti heimsfrægðar eftir að hveitibrauðsdögum strákabandanna lýkur.

Verðandi Íslandsvinurinn Justin Timberlake státar af einum farsælasta sólóferlinum eftir að hljómsveitin ’N Sync hætti árið 2002. Síðan þá hefur hann gefið út hvern smellinn á fætur öðrum, unnið til níu Grammy-verðlauna og meira að segja gert garðinn frægan sem leikari í bíómyndum á borð við The Social Network, Bad Teacher og Inside Llewyn Davis.

Robbie Williams hætti í strákasveitinni Take That árið 1995 og olli miklu uppnámi árið 1999 þegar hann tróð upp í Laugardalshöll og hætti í miðjum tónleikum eftir að plastflösku var hent í átt til hans á sviðinu. Hann hefur selt rúmlega sjötíu milljónir platna um heim allan og er í hópi söluhæstu tónlistarmanna allra tíma. Hann er söluhæsti breski sólólistamaður í Bretlandi og árið 2006 fékk hann pláss í Heimsmetabók Guinness fyrir að selja 1,6 milljónir miða á tónleikaferðalag sitt Close Encounters á einum degi. Þá hefur hann einnig hlotið sautján Brit-verðlaun, fleiri en nokkur annar listamaður.

Ronan Keating hefur gefið út fjölmargar plötur eftir að strákabandið Boyzone hætti árið 2000. Ronan náði athygli heimsbyggðarinnar þegar lag hans When You Say Nothing at All hljómaði í kvikmyndinni Notting Hill með Júlíu Roberts og Hugh Grant í aðalhlutverki. Ronan hefur selt rúmlega tuttugu milljónir platna á heimsvísu og muna eflaust margir eftir því þegar kauði tróð upp á Þjóðhátíð í Eyjum árið 2012.

Bobby Brown gerði garðinn frægan í sveitinni New Edition og sló ekki slöku við þegar hann hóf sólóferil. Platan hans Don‘t Be Cruel varð mikill hittari og innihélt hans helsta smell, My Prerogative. Bobby var kvæntur söngkonunni Whitney Houston og var einkalíf hans oft í forgrunni í fjölmiðlum en ekki tónlistin. Hann hefur unnið til Grammy-verðlauna, American-tónlistarverðlauna og Soul Train-verðlauna og er talinn frumkvöðull Jack Swing-tónlistar sem er sambland af hip hop-i og R&B.

Hljómsveitin Wham! hætti árið 1986 og George Michael og Andrew Ridgeley fóru hvor í sína áttina. Andrew gekk ekkert í tónlistinni eftir það en sama er ekki hægt að segja um George. Hann hefur selt rúmlega hundrað milljónir platna á heimsvísu en fyrsta sólóplata hans, Faith, seldist í rúmlega tuttugu milljónum eintaka. Hann hefur komið sjö smáskífum á topp vinsældalista í Bretlandi og átta á toppinn á Billboard Hot 100-listann. Þá hefur hann unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal tvennra Grammy-verðlauna, þrennra Brit-verðlauna og fernra MTV Video Music-verðlauna.

Það tæki heila bók að rekja frægðarferil Michaels Jackson úr Jackson 5 enda er hann alltaf kallaður konungur poppsins. Platan hans Thriller frá árinu 1982 er mest selda plata allra tíma og setti Michael fjölmörg met áður en hann lést árið 2009. Hann vann til 26 American Music-verðlauna, fleiri en nokkur annar listamaður og náði þrettán smáskífum á topp vinsældalista í Bandaríkjunum.

Mark Owen – Take That
Barnslegt andlit hans náði ekki að selja þær fjórar plötur sem hann hefur gefið út af neinu viti. Lögin Child og Clementine eru líklega hvað þekktust eftir hann.
Joe Jonas – Jonas Brothers
Sólóplötunni hans, Fastlife, var frestað ítrekað en hún kom loksins út árið 2011 og náði ekki flugi.
Brian Harvey – East 17
Brian gaf aðeins út eina hræðilega plötu, Solo, árið 2001 og fékk hún hræðilega dóma.
Abz Love – 5ive
Þegar 5ive lagði upp laupana árið 2001 var Abz sá eini sem hóf sólóferil og gaf út plötuna Abstract Theory. Hún náði 29. sæti á vinsældaristum í Bretlandi.
Brian McFadden – Westlife
Brian dýfði sér í indítónlist en plöturnar hans fjórar hafa ekki notið mikillar velgengni.