Bíó og sjónvarp

Stjörnurnar sem vert er að fylgjast með

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Barkhad Abdi.
Barkhad Abdi. Vísir/Getty
Kvikmyndirnar American Hustle og Gravity hlutu flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna sem tilkynntar voru eftir hádegi í gær í Los Angeles. Þær hlutu tíu tilnefningar hvor. 12 Years a Slave hlaut níu tilnefningar en myndirnar Captain Phillips, Dallas Buyers Club, Her, Nebraska, Philomena og The Wolf of Wall Street eru einnig tilnefndar sem besta myndin.

Það kemur helst á óvænt að nokkrir leikarar og leikkonur sem áttu stórleik á síðasta ári fengu ekki tilnefningar. Þar ber helst að nefna Opruh Winfrey í The Butler, Robert Redford í All Is Lost, Emmu Thompson í Saving Mr. Banks, Tom Hanks og Paul Greengrass í Captain Phillips, Scarlett Johansson fyrir Her, og James Gandolfini heitinn í Enough Said.



Barkhad Abdi er tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki fyrir Captain Phillips og Lupita Nyong‘o sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir 12 Years a Slave. Þau voru bæði tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir leik sinn og eru klárlega stjörnur sem vert er að fylgjast með á næstunni.

Barkhad leikur sómalískan sjóræningja í Captain Phillips og fékk hlutverkið eftir að hafa sótt áheyrnarprufur fyrir myndina. Áður hafði hann fengist við að skjóta tónlistarmyndbönd og aðeins fiktað við leikstjórn í Minnesota þar sem hann býr en helstu tekjur sínar fékk hann þó fyrir að keyra limmósínu. 

Saga hans í Hollywood hefur verið ævintýri líkust og var hann einnig tilnefndur til SAG-verðlaunanna fyrir frammistöðu sína sem sjóræninginn frá Sómalíu. Hann hefur nú ráðið sér umboðsmann í Hollywood og leitar að nýjum, spennandi hlutverkum í kvikmyndabransanum.



Lupita Nyong‘o.
Lupita Nyong‘o á foreldra frá Kenýa en fæddist í Mexíkó. Hún er því fyrsta manneskjan af kenýskum og mexíkóskum uppruna til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna. Faðir hennar, Peter Anyang‘ Nyong‘o, er pólitískur leiðtogi í Kenýa og eyddi Lupita því barnæskunni í sviðsljósinu. 

Lupita vann sem aðstoðarmaður í myndinni The Constant Gardener með Ralph Fiennes og Rachel Weisz og var hluti af tökuliðinu í tvo mánuði. Á tökustað fékk hún ráð frá Ralph sem sagði henni að hún ætti bara að verða leikkona ef hún gæti ekki lifað án þess.

Leikstjórinn Steve McQueen fékk þúsund konur í prufur fyrir hlutverkið sem Lupita fékk í 12 Years a Slave. Lupita landaði hlutverkinu, sem er hennar fyrsta, þegar hún var nýútskrifuð af leiklistarbrautinni í Yale-háskóla. Næsta verkefni hennar er hasarmyndin Non-Stop með Liam Neeson og Julianne Moore sem verður frumsýnd 28. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.