Viðskipti erlent

Skipaumferð hrundi á norðausturleiðinni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fraktsiglingar yfir norðurskautið um norðausturleiðina drógust óvænt saman um 70 prósent á þessu ári, eftir stöðuga aukningu undanfarin ár. Aðeins 23 flutningaskip virðast hafa siglt leiðina í ár miðað við 71 í fyrra.

Sigling kínverska ísbrjótsins Snædrekans beint frá Kína til Íslands um Norður-Íshafið fyrir tveimur árum var dæmi um þá auknu áherslu sem ríki heims hafa sýnt norðursiglingum og hérlendis er meðal annars verið að kanna möguleika á stórri þjónustuhöfn við Langanes. Siglingaleiðin milli Evrópu og Japans með norðurströnd Rússlands er fjórðungi styttri en leiðin um Súez-skurðinn og því hafa menn spáð þvi að skipaumferð myndi stóraukast eftir því sem hafís minnkaði vegna hlýnunar.

Og sú hefur verið þróunin undanfarin ár. Þannig fór metfjöldi skipa þessa leið í fyrra, 71 skip, sem var 54 prósenta aukning frá árinu á undan.

En nú hefur óvænt orðið bakslag, raunar hrun, því aðeins 23 skip hafa siglt þessa leið í ár, eða þriðjungur af þeim fjölda sem fór í fyrra, samkvæmt frétt norska fréttamiðilsins Barentsobserver. Ef mælt er í frakt er samdrátturinn enn meiri, eða 80 prósent, 270 þúsund tonn í ár, miðað við 1,3 milljónir tonna í fyrra, samkvæmt tölum sem hafðar eru eftir yfirmanni siglingastofnunar Rússland.

Sá vill þó ekki meina að viðskiptabann og versnandi samskipti Rússlands og vesturlanda skýri samdráttinn en nefnir að tvö af stærstu skipafélögum á leiðinni hafi ekki náð að endurnýja samninga. Norðausturleiðin liggur um efnahagslögsögu Rússlands og kjarnorkuknúnir ísbrjótar Rússa þjónusta skipin.

Þá er því haldið fram í nýlegri vísindagrein að spár um norðurslóðasiglingar séu of bjartsýnar, sérstaklega fyrir gámaflutninga. Þættir eins og illviðri og rekís kalli á dýrari skip og takmarkað netsamband og björgunarþjónusta geri siglingar þarna um lítt kræsilegar.


Tengdar fréttir

Stór áfangi að þjónustuhöfn Norðurslóða við Finnafjörð

Oddviti Langanesbyggðar hefur fulla trúa á því að risahöfn við Finnafjörð verði að veruleika eftir að eitt stærsta hafnafyrirtæki Evrópu, Bremenports, ritaði undir samstarfssamning um að kosta mörghundruð milljóna króna undirbúningsvinnu.

Staðsetning Íslands gefur mikla möguleika

Formaður samtaka norskra skipaeigenda segir að Ísland sé í lykilstöðu vegna siglinga á norðurslóðum í framtíðinni. Spurningamerki eru þó sett við öryggismál á svæðinu varðandi siglingar vöruflutningaskipa og ekki síður farþegaskipa.

Snædrekinn kominn til Reykjavíkur

Kínverska rannsóknarskipið og ísbrjóturinn Snædrekinn liggur nú við Ytrihöfn í Kollafirði. Það lagðist að bryggju um níu leytið í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×