Lífið

Segir Cosby hafa brotið gegn sér þegar hún var undir lögaldri

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Renita Chaney Hill, kona sem reyndi að skapa sér nafn í leiklistarbransanum á yngri árum, segir í viðtali við KDKA að grínarinn Bill Cosby hafi brotið gegn henni kynferðislega þegar hún var yngri.



Renita, sem nú er 47 ára, segir að hún hafi kynnst Cosby þegar hún var að reyna að skapa sér frama sem leikkona og fyrirsæta á níunda áratug síðustu aldar. Hún hafi hitt Cosby í Pittsburgh í Bandaríkjunum og kynntist honum þegar hún fékk hlutverk í sjónvarpsþætti hans, Picture Pages. Hún segir að þau hafi flogið saman til ýmissa borga, til að mynda Atlanta og New York.



„Hann var upptekinn á daginn en bað mig alltaf um að koma upp á hótelherbergi sitt á kvöldin,“ segir Renita og bætir við að grínistinn hafi gefið henni áfengi þó hún hafi verið undir lögaldri.



„Mér fannst alltaf skrýtið að eftir að ég fékk mér drykk endaði ég í rúminu og mundi ekki neitt daginn eftir,“ segir hún.



„Ég man eftir að hann kyssti mig og snerti í eitt sinn áður en ég leið út af og ég man eftir lykt af vindlum og mér líkaði það ekki. Ég man eftir öðru skipti þegar ég vaknaði daginn eftir og hann var að fara. Hann minntist á að ég ætti að léttast aðeins. Mér fannst það skrýtið því hvernig vissi hann það?“ bætir hún við. 



Hún segir að Cosby hafi boðist til að borga fyrir skólagöngu sína en Renita hætti að umgangast grínistann þegar hún var nítján ára því henni fannst nærvera hans óþægileg. Hún segist koma fram núna með þessar ásakanir því henni finnst hræðilegt að horfa á sögur hinna kvennanna sem hafa ásakað Cosby um kynferðislegt ofbeldi dregnar í efa.



„Það vill enginn tengjast svona máli. En þegar öllu er á botninn hvolft hefur enginn rétt til að brjóta á einhverjum á þennan hátt, sama hver það er. Mér er sama hve miklar stjörnur þeir eru eða hvernig samfélagið sér þá - þetta er ekki rétt.“


Tengdar fréttir

Cosby afboðar sig eftir ásakanir um nauðganir

Búið er að afboða komu Bill Cosby, leikara og grínista, í sjónvarpsþáttinn Late Show með David Letterman á CBS. Talið er að það tengist ásökunum um kynferðislegt ofbeldi og nauðgunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.