Fótbolti

Emil: Fyrir mér er Guð enn raunverulegri en áður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðssyni líður vel á Ítalíu.
Emil Hallfreðssyni líður vel á Ítalíu. Vísir/Valli
Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson missti föður sinn, Hallfreð Emilsson, eftir baráttu við krabbamein í síðasta mánuði. Hallfreður lést langt fyrir aldur fram en þrátt fyrir mikinn missi gaf Emil kost á sér í verkefni íslenska landsliðsins sem mætir Lettlandi í Riga á morgun.

Fréttablaðið tók Emil tali fyrir æfingu liðsins á Skonto-leikvanginum í gær þar sem hann ræddi þennan mikla missi fyrir sig og fjölskyldu sína. „Það var erfitt að þurfa að kveðja hann sem föður og minn besta vin í lífinu,“ segir Emil. „Ég mun halda minningu hans á lofti en um leið halda áfram að lifa lífinu. Það hefði hann viljað.“

Veitti mér huggun og gleði

Emil leikur með Hellas Verona á Ítalíu og félagið hefur sýnt honum mikinn stuðning á þessum erfiðu tímum. Fyrir það er hann þakklátur.

„Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast en viðbrögð félagsins fannst mér ótrúleg. Félagið sendi frá sér afar fallega kveðju og leikmenn spiluðu með sorgarbönd fyrir pabba,“ segir Emil en stuðningsmannasveit landsliðsins, Tólfan, heiðraði einnig minningu Hallfreðs með gjöf. „Það þótti mér einstakt líka. Allt þetta var fallegt og styrkjandi og veitti mér bæði huggun og gleði.“

Emil sneri aftur til Ítalíu fyrir leik Hellas Verona gegn Cagliari á laugardaginn. Hann kom inn á sem varamaður og lagði upp sigurmarkið í 1-0 sigri. „Þegar ég labbaði út af eftir leikinn kölluðu allir stuðningsmennirnir nafnið mitt. Þá báru tilfinningarnar mig ofurliði og ég brast í grát,“ segir Emil.

„Mér kom margt til hugar eftir leikinn enda hafði ég það að vana að hringja alltaf í kallinn eftir leik til að gera hann upp. Það var því ekkert símtal að þessu sinni.“

Guð enn raunverulegri en áður

Emil og fjölskyldu hans líður afar vel á Ítalíu en í haust hóf hann sitt fimmta keppnistímabil þar. Hann á enn þrjú ár eftir af samningi sínum við Hellas Verona, þar sem honum líður eins og heima hjá sér.

Hann finnur einnig mikinn styrk í sinni trú í þessum raunum. „Fyrir mér er Guð enn raunverulegri en áður og þrátt fyrir allt hefur trú mín styrkst. Það kann að hljóma einkennilega fyrir einhverja en það er engu að síður tilfellið hjá mér og minni fjölskyldu.“

Ítalir eru svo hlýir

Ítalir eru margir trúræknir og Emil segir að hann finni sig vel í slíku umhverfi.

„Ítalir eru svo hlýir. Þeir eru opnir og miklar tilfinningaverur. Þannig er maður sjálfur og því er maður nokkurn veginn á heimavelli þar. Það sýnir sig best í því hversu mikinn skilning maður fékk og þá samúð sem við höfum fengið. Mér þykir afar vænt um það.“


Tengdar fréttir

Emil snéri aftur og lagði upp sigurmark

Emil Hallfreðsson lagði upp sigurmark Hellas Verona í 1-0 sigri á Cagliari í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag. Þetta var fyrsti leikur Emils eftir að hann missti föður sinn.

Emil hafði betur gegn Maradona | Myndir

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson tók þátt í mjög sérstökum knattspyrnuleik í gær þar sem hann spilaði meðal annars gegn sjálfum Diego Armando Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×