Fótbolti

Utan vallar: Víti til varnaðar í Riga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Vísir/Valli
Leikur Íslands gegn Lettlandi í Riga á föstudaginn er mikilvægur. Eins og allir landsleikir. En eftir góðan sigur á Tyrklandi í síðasta mánuði er nauðsynlegt að fylgja honum eftir með sigri á lettnesku landsliði sem á að teljast lakari aðilinn.

Það verður þó ekki auðvelt enda erfitt að ætla strákunum að sækja þrjú stig á útivelli. Það eru sárafá auðveld verkefni í alþjóðlegri knattspyrnu og þetta er ekki eitt þeirra. Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck hafði orð á því á dögunum að hann væri minnugur þess að eftir 2-0 sigur á Noregi á Laugardalsvelli í fyrsta leik síðustu undankeppni kom 1-0 tap gegn Kýpur á útivelli aðeins fjórum dögum síðar. Það reyndist eini sigur Kýpverja í allri undankeppninni.

Það er sjálfsagt að fara lengra aftur í tímann til að rifja upp fleiri sambærileg atvik. Ég var á Windsor Park í Belfast árið 2001 þar sem Ísland steinlá fyrir Norður-Írlandi, 3-0, eftir að hafa lagt ógnarsterkt lið Tékka á Laugardalsvellinum aðeins nokkrum dögum fyrr. „Stundum er þetta bara svona,“ sagði landsliðsþjálfarinn Atli Eðvaldsson við mig þá, niðurlútur eftir leikinn.

Ísland hefur spilað einn mótsleik hér í Riga. Það var árið 2006 og strákarnir steinlágu gegn Lettum, 4-0. Það góða er að uppgangur landsliðsins okkar hefur verið með slíkum hætti síðustu ár að sá leikur er ansi fjarri manni í huganum.

En þetta eru víti til varnaðar og það er hverjum hollt að draga lærdóm af sögunni. Ég efast ekki um að þjálfarateymi landsliðsins sé meðvitað um það og hafa lagt skarpar línur fyrir föstudaginn. Íslendingar eiga frábært knattspyrnulandslið og þó svo að aðeins ein umferð sé búin í riðlakeppninni yljar manni um hjartaræturnar að sjá nafn Íslands í efsta sætinu. Það væri ekki amalegt að taka á móti bronsliði Hollands frá HM í Brasilíu á Laugardalsvelli á mánudag sem topplið riðilsins með fullt hús stiga.


Tengdar fréttir

Pahars leggur mikla áherslu á leikskipulag

Marian Pahars er einn þekktasti knattspyrnumaður Lettlands hin síðari ár en þessi 38 ára fyrrum sóknarmaður Southampton er nú landsliðsþjálfari Lettlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×