Nú er september að líða undir loka en mitt sykurskerta líf heldur áfram á brautinni sem ég er búin að vera á undanfarnar vikur. Ég hefði ekki trúað því fyrir nokkrum vikum síðan að ég myndi koma til með að lesa aftan á matvæli til að kanna hvort sykur væri eitt af fjórum fyrstu hráefnunum. Ótrúlegt alveg hreint.
Ég er ekki orðin mjóna með glansandi hár og húð heldur er ég bara ég, ósköp venjuleg útgáfa af sjálfri mér en þú sú sem þarf ekki lengur sykur og langar eiginlega enn minna í hann. Það er eiginlega ekki fyrr en eftir að hafa markvisst pælt í neyslunni á honum sem ég skil hversu óþarfur hann oft var, eins og ég hef sagt oft áður, þetta var oft meiri vani en löngun.
Þannig að nú er það bara áfram veginn og njóta þegar ég fæ mér dísæta súkkulaðiköku á kaffihúsi (á tyllidögum) og velja heilsusamlegri valkosti þegar ég baka heima sjálf. Þá hef ég loksins gefið mig og set nú hnetublöndu með fræjum og rúsínum í poka til að snakka á þegar mig vantar smá hressingu. (Ég hefði aldrei haldið að ég yrði ein af þeim en viti menn, þetta er furðu saðsamt og endist lengur heldur en súkkulaðistykki).
Ég vona að átakið hafi náð að hreyfa við þér og þó mánuðurinn líði undir lok eftir nokkra daga þá tekur Meistaramánuður við svo það er ekki of seint að lofa sér breytingu á matarræðinu.
