Fótbolti

Hiddink: Ekki hægt að gefa svona heimskuleg mörk

Guus Hiddink tók hálftíma eftir leikinn til þess að róa sig niður.
Guus Hiddink tók hálftíma eftir leikinn til þess að róa sig niður. Vísir/Getty
Guus Hiddink, þjálfari hollenska landsliðsins, var hundsvekktur eftir að varnarmistök á lokamínútum leiksins kostaði liðið eitt stig í 1-2 tapi gegn Tékklandi í gær.

Holland lenti undir snemma leiksins en náði að jafna metinn í upphafi seinni hálfleiks og voru hollensku leikmennirnir líklegri til að bæta við marki þegar mistök Daryl Janmaat gáfu Tékkum sigurmark.

„Ég var brjálaður, ég tók hálftíma til að róa mig niður eftir þetta áður en ég færi í viðtöl. Ef þér tekst ekki að vinna verðuru að gera allt sem þú getur til þess að þú tapir ekki. Þessvegna geturu ekki gefið svona heimskuleg mörk.“

Eftir tapið er Holland stigalaust í A-riðli undankeppninnar en Tékkland situr í 2. sæti, einu sæti á eftir Íslandi.

„Þegar þú gerir svona mistök þá er erfitt að ná einhverjum árangri. Fyrsta markið kom eftir frábært skot en við gáfum þeim annað mark leiksins,“ sagði Hiddink og tók Janmaat undir það að annað markið væri hans sök.

„Þetta voru mistök hjá mér sem ég get því miður ekki breytt,“ sagði Janmaat í viðtali við hollenska miðla eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×