Formúla 1

Bílskúrinn: Heimamaður vann á Hockenheim

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Rosberg fagnaði gríðarlega
Rosberg fagnaði gríðarlega Vísir/Getty
Nico Rosberg á Mercedes vann þýska kappaksturinn um helgina. Það var í fyrsta sinn sem þjóðverji vinnur Formúlu 1 keppni í Þýskalandi í þýskum bíl. Hvað eru mörg þ í því?

Keppnin einkenndist af miklum framúrakstri og áhugaverðum atvikum. Þau markverðustu verða skoðuð hér í Bílskúrnum, léttu hliðinni á Formúlu 1 á Vísi.

Massa og upphafshringirnir

Felipe Massa hefur verið óheppinn í ræsingum í ár. Þrisvar hefur hann lent í óhappi sem bindur enda á keppnina þann daginn. Strax í fyrstu keppni ársins lenti hann í því að Kamui Kobayashi ók aftan á hann í fyrstu beygju. Í keppninni í Bretlandi varð hann fyrir Kimi Raikkonen þegar Raikkonen lenti á varnarvegg á miklum hraða og kastaðist inn á brautina aftur.

Ekki virðist eiga af Massa að ganga. Hann valt í fyrstu beygju þegar hann lenti í samstuði við Kevin Magnussen á McLaren. Skiptar skoðanir eru upp varðandi það hverjum er um að kenna.

Massa telur að Magnussen hefði átt að bremsa og víkja, þar sem Massa kom á undan inn í beygjuna.

Magnussen telur að Massa hefði átt að sjá hann koma og sýna honum þá kurteisi að gefa honum eftir pláss til að taka beygjuna.

Dómarar keppninnar komust fljótt að þeirri niðurstöðu að um óhappatilvik væri að ræða sem hvorugum yrði um kennt. Verður ekki talinn ástæða til að rengja þá niðurstöðu. Sama hversu grátlegt var fyrir Massa að detta út, eða Magnussen að missa fjórða sætið.

Sutil hopapr yfir varnarvegg með bílinn sinn í bakgrunninum, stopp á miðjum ráskaflaVísir/Getty
Öryggisbíll eða ekki öryggisbíll?

Sauber bíll Adrian Sutil snérist í miðjum ráskafla undir lok keppninnar. Ástæðan var, samkvæmt Sauber bilun í bensíngjöf bílsins. Bensíngjöfin virkaði annað hvort ekkert eða svo þegar henni var ýtt örlítið niður þá galopnaði hún fyrir bensínflæðið. Sutil var víst búinn að aka svona í einhvern tíma þegar hann missti stjórn á bílnum.

Burt séð frá því hvað olli snúningnum varð framhaldið mikið hitamál. Bíllinn drap á sér og stóð hreyfingalaus á miðri braut. Þá leið nokkur stund þangað til brautarstarfsmenn komu aðvífandi til að ýta honum í öruggt skjól.

Bíllinn var ansi óheppilega staðsettur á brautinni áður en vaskir brautarstarfsmenn komu í veg fyrir að kalla þyrfti út öryggisbíl.

Einhverjir samsæriskenningasmiðir hóf þá og þegar störf og komust að því að ef einhver annar en þýskur ökumaður hefði haft örugga forystu þá hefði öryggisbíllinn verið fenginn til að hægja á hópnum.

Staðan var á þessum tímapunkti þannig að Rosberg var með ansi veglega forystu. Hamilton var að elta uppi Valtteri Bottas á Williams til að reyna að ná af honum öðru sætinu. Fyrr nefndir smiðir vilja meina að ef stöðunni hefði verið öfugt farið hefði öryggisbíllinn verið leystur úr læðingi hið snarasta.

Hamilton sagði eftir keppnina „ég hafði miklar áhyggjur af brautarstarfsmönnunum, miklar áhyggjur. Við komum í þessa beygju á miklum hraða og svo er brautarstarfsmaður alls ekki langt frá þar sem við ökum fram hjá. Ég tel þetta tæpasta tilvikið í langan, langan tíma.“

Hann bætti svo við „En ég held þú vitir af hverju (öryggisbíllinn kom ekki út),“ hann vill meina að heimamenn hafi hugsanlega verið að hjálpa Rosberg en sett sjálfa sig í hættu við það.

„Sem betur fer kom öryggisbíllinn ekki út undir lokinn, þá hefði þetta orðið mjög tæpt,“ sagði Rosberg sem var ánægður með brautarstarfsmennina.

Bottas gerði gott mót í ÞýskalandiVísir/Getty
Red Bull lýtur á Williams sem ógn

Red Bull liðið telur sig ekki geta hunsað Williams liðið sem ógn í heimsmeistarakeppni bílasmiða. Williams hefur verið í góðu formi undanfarið.

Ríkjandi heimsmeistarar virðast hafa tapað titlinum sem líklegasta liðið til að stríða Mercedes í ár. Bottas hefur náð verlðlaunasæti þrisvar í síðustu þremur keppnum.

„Þeir eru með hraðskreiðan bíl og tvo fljóta ökumenn, og Bottas hefur verið mjög sannfærandi í síðustu keppnum,“ sagði Christian Horner keppnisstjóri Red Bull um Williams liðið.

Hart barist í þýska kappakstrinum, Hamilton tekur fram úr RaikkonenVísir/Getty
Staðan og framhaldið

Rosberg leiðir heimsmeistarakeppni ökumanna sem fyrr með 14 stiga forskot á liðsfélaga sinn og 190 heildarstig. Daniel Ricciardo á Red Bull er þriðji, 84 stigum á eftir Rosberg en 9 stigum á undan Fernando Alonso á Ferrari sem er fjórði.

Valtteri Bottas er fimmti, sex stigum á eftir Alonso. Ríkjandi heimsmeistari Sebastian Vettel er sjötti, Nico Hulkenberg er sjöundi og Jenson Button áttundi. Níundi er Kevin Magnussen og Felipe Massa lokar svo topp tíu heilum 160 stigum á eftir Rosberg.

Mercedes liðið hefur öruggt forskot í keppni bílasmiða og gæti misst af fjórum keppnum en samt verið efst á blaði. Red Bull er í öðru sæti, Williams er komið í þriðja eftir þýska kappaksturinn þar sem liðið tók fram úr Ferrari sem er nú í fimmta sæti.

Næsta keppni fer fram í Búdapest á Ungverjalandi strax næstu helgi svo það er hægt að fara huga að henni. Svo tekur við þriggja vikna sumarfrí.

Hamilton var þrátt fyrir allt ekki alveg sáttur við daginn og tók lítinn þátt í gleðinniVísir/Getty
Ófarir Hamilton

Það hóf að halla undan fæti strax í fyrstu lotu tímatökunnar. Þá gaf Brembo bremsudiskur í bíl Hamilton eftir. Bíllinn snérist þá stjórnlaust á varnarvegg. Hamilton kenndi sér lítilega meins eftir höggið en gat tekið þátt í keppninni. Við höggið skemmdist gírkassinn í bílnum. Honum þurfti því að skipta út fyrir nýjan. Slíku fylgir fimm sæta refsing á ráslínu.

Hamilton ræsti af stað í tuttugasta sæti. Hann var þó fljótur að vinna sig upp. Undir lok keppninnar var hann ekki langt á eftir Bottas sem var annar. Hamilton ók sig því úr tuttugasta sæti upp í það þriðja, sem er ekki slæmt dagsverk.

Hann var þó viss um að hann hefði getað keppt við Bottas ef öryggisbíllinn hefði verið kallaður út þegar Sutil snérist. Hugsanlega hefði hann í framhaldinu getað reynt að komast fram úr Rosberg. Það mun þó ekki skýrast úr þessu.

Einhverjir myndu segja að honum hefði tekist að lágmarka skaðann. Formúlu 1 ökumenn eru þó flestir með það hugarfar að allt annað en sigur eru vond úrslit.

Massa á hvolfiVísir/Getty

Tengdar fréttir

Hvern fer að vanta íhluti eftir níu keppnir?

Aukin áhersla er nú í Formúlu 1 á áreiðanleika. Hér förum við yfir hver er búinn að nota hvað. Refsingar liggja við notkun fleiri hluta en heimilt er.

Bílskúrinn: Kristjáns-horn og klöguskjóður

Eftir gríðarlega spennandi breskan kappakstur þar sem heimamaðurinn Lewis Hamilton hjá Mercedes vann er kominn tími til að skoða Bílskúrinn, léttu hliðina á Formúlu 1 á Vísi.

Rosberg á ráspól í Þýskalandi

Nico Rosberg á Mercedes náði í ráspól á heimavelli. Valtteri Bottas varð annar á Williams og liðsfélagi hans Felipe Massa varð þriðji.

Samantekt frá breska kappakstrinum

Stöð 2 Sport sýndi beint frá Formúlu 1 kappakstrinum í Bretlandi í gær og eftir kappaksturinn var farið yfir það helsta sem gerðist í keppninni í dag. Nú er hægt að sjá Samantektarþáttinn hér inn á Vísi.

Nico Rosberg fyrstur á heimavelli

Nico Rosberg á Mercedes kom fyrstur í mark í þýska kappakstrinum. Annar varð Valtteri Bottas á Williams, Lewis Hamilton á Mercedes varð þriðji.

Mercedes menn fljótastir á föstudagsæfingum

Nico Rosberg á Mercedes varð fljóstastur á fyrri æfingu dagsins. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton var skammt á eftir honum. Hamilton varð svo flótastur á seinni æfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×