Viðskipti erlent

Samsung í viðræðum við Under Armour

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Forsvarsmenn rafmagnstækjaframleiðandans Samsung hittu fyrr í mánuðinum framkvæmdastjóra Under Armour. Erlendir fjölmiðlar segja tilefni fundarins vera að ræða hvernig fyrirtækin tvö geta starfað saman til að berjast gegn samstarfi Apple og Nike.

Með samstarfinu ætla forsvarsmenn Samsung að reyna að auka sölu á snjallúri sínu, Galaxy Gear. Með því að starfa með íþróttafataframleiðandanum Under Armour fengi fyrirtækið aðgang að þekkingu til þróunar snjalltækja fyrir íþróttamenn.

Apple og Nike hafa starfað saman frá árinu 2006 þegar fyrirtækin kynntu Nike og iPod blönduna til íþróttafólks. Árið 2012 gaf Nike út FuelBand snjalltæki sem eingöngu getur tengst Apple vörum.

Talið er líklegt að Samsung hafi í huga að gera eitthvað svipað með Under Armour.

Samsung er sagt hafa náð völdum á um 71 prósenta hluta markaðarins fyrir snjallúr, en gert er ráð fyrir því að Apple muni breyta miklu með útgáfu iWatch snjallúrsins. Þó liggur ekki fyrir hvenær það mun koma á markað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×