Fótbolti

Sonur Eiðs Smára getur skorað eins og pabbi hans | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
HK fagnaði sigri í keppni A-liða á N1-mótinu í fótbolta um helgina þar sem strákar í fimmta flokki á aldrinum 11-12 ára keppa.

HK vann nágranna sína og erkifjendur í Breiðabliki, 2-1, í úrslitaleiknum. Blikar komust 1-0 yfir en hetja HK-inga var Andri Lúkas Guðjohnsen, miðsonur Eiðs Smára Guðjohnsens.

Pilturinn hefur augljóslega ekki langt að sækja knattspyrnuhæfileikana enda faðir hans og afi tveir af albestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar í gegnum tíðina.

Andri Lúkas skoraði jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu en Eiður Smári hefur alltaf verið frábær vítaskytta.

Seinna markið var svo keimlíkt mörkum þeim sem Eiður Smári hefur skorað í gegnum tíðina. Hann gerði það að listgrein að klára færin sín með einni snertingu í teignum, með því annaðhvort að vippa boltanum yfir markverðina eða renna honum í fyrstu snertingu framhjá þeim.

Mörkin hjá þessum unga og efnilega knattspyrnumanni má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau koma eftir 55 sekúndur. Þáttur um allt mótið í umsjón GuðjónsGuðmundssonar verður á dagskrá á Stöð 2 Sport á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×