Viðskipti erlent

Stærsta bollakökukeðja heims lokar sjoppunni

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Stærsta bollakökukeðja heims, Crumbs Bake Shop, hefur lokað öllum verslunum sínum og gæti farið í gjaldþrot á næstu dögum. Independent greinir frá þessu. Talsmenn Crumbs segjast vera að skoða takmarkaða valmöguleika sína núna.

Fyrirtækið sem rak 48 verslanir í yfir tíu ríkjum Bandaríkjanna hefur sagt upp öllum starfsmönnum sínum en þeir fengu fregnirnar í gær þegar þeir mættu til vinnu á mánudag.

Crumbs Bake Shop var stofnað árið 2003 sem lítið bakarí í New York en varð fljótlega stærsta bollakökukeðja heims og bakaði yfir milljón bollakökur með 75 bragðtegundum mánaðarlega.

Fyrirtækið fór á markað í Bandaríkjunum árið 2011, á hápunkti bollakökubólunnar, en síðan þá hefur salan hrapað verulega og var fyrirtækið afskráð af bandarískum markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×