Þjálfari Juventus, Antonio Conte, var allt annað en sáttur við frammistöðu enska dómarans, Mark Clattenburg, í leik síns liðs gegn Benfica í Evrópudeildinni í gær.
Leiknum lyktaði með markalausu jafntefli og Juventus missti því af úrslitaleiknum sem verður spilaður á þeirra heimavelli.
"Ég kunni ekki að meta viðhorf dómarans sem og andstæðinga okkar í leiknum. UEFA hefði átt að sýna okkur þá virðingu að senda dómara sem stendur undir svona stóru verkefni," sagði Conte reiður.
Conte vildi fá víti í leiknum en leikmaður Benfica fékk reyndar rautt spjald skömmu síðar. Það dugði ekki Juve til þess að skora í leiknum.
"Dómarinn leyfði Benfica að komast upp með ótrúlega hluti allan leikinn. Hann sagði fyrir leik að hann myndi ekki stoppa leikinn í hvert skipti sem leikmaður lægi í grasinu. Það er samt nákvæmlega það sem gerðist."
