Íslenski boltinn

Garðar hetja Skagamanna í fyrsta leik - Þróttur og HK byrja vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Daníel
Garðar Gunnlaugsson var hetja Skagamann í sigri á Selfossi í fyrstu umferð 1. deildar karla í fótbolta í kvöld. Þróttur og HK unnu bæði góða útisigra, Þróttur vann 4-1 sigur á Haukum og HK vann 3-2 sigur á KV.

Garðar Gunnlaugsson skoraði eina markið þegar ÍA vann 1-0 sigur á Selfossi á Norðurálsvellinum á Akranesi en markið mikilvæga kom á 47. mínútu leiksins.

HK vann 3-2 sigur á Knattspyrnufélagi Vesturbæjar í Egilshöllinni og byrja því vel undir stjórn Þorvaldar Örlygssonar. Viktor Unnar Illugason og Atli Valsson komu nýliðum HK í 2-0 í fyrri hálfleik og Jón Gunnar Eysteinsson bætti við þriðja markinu í upphafi seinni hálfleiks. Eyjólfur Fannar Eyjólfsson og Örn Arnaldsson löguðu stöðuna.

Þróttur vann 4-1 sigur á Haukum á Schenkervellinum á Ásvöllum. Hreinn Ingi Örnólfsson skoraði fyrsta mark Þróttar og Vilhjálmur Pálmason bætti við tveimur mörkum fyrir hálfleik. Matthew Eliason skoraði fjórða markið eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik.

Haukar enduðu leikinn manni færri eftir að Hilmar Geir Eiðsson fékk sitt annað gula spjald á 63. mínútu leiksins. Haukar náðu engu að síður að minnka muninn með marki Andra Steins Birgissonar.



Úrslit og markaskorarar eru fengin af úrslitasíðunni úrslit.net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×