Fótbolti

Fyrsti borgarslagur sögunnar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Spænsku félögin Atlético Madrid og Real Madrid mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fótbolta í kvöld en þetta verður í fyrsta sinn í sögunni þar sem lið frá sömu borg mætast í úrslitaleik keppninnar.

Atlético Madrid sló Chelsea út í kvöld með 3-1 sigri á Chelsea á Stamford Bridge en Real Madrid sló Evrópumeistara Bayern München með 4-0 sigri í München í gær. Bæði liðin tryggðu sér því sætið í úrslitaleiknum með gríðarlega flottum útisigrum.

Þetta er annað árið í röð sem sama þjóð á bæði liðin í úrslitaleiknum en þýsku liðin Bayern München og Borussia Dortmund mættust í úrslitaleiknum á Wembley í fyrravor.

Þetta verður jafnframt annar alspænski úrslitaleikurinn en Real Madrid mætti Valancia í úrslitaleiknum fyrir fjórtán árum sem var jafnfram fyrsti úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni milli liða frá sama landi.



Úrslitaleikir félaga frá sama landi í sögu Meistaradeildarinnar:

2000: Real Madrid - Valencia 3-0

2003: AC Milan - Juventus 0-0 (AC Milan vann í vítakeppni)

2008: Manchester United - Chelsea 1-1 (Man. United vann í vítakeppni)

2013: Bayern München - Borussia Dortmund 2-1

2014: Real Madrid - Atlético Madrid ?-?


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×