Guðmundur Þórarinsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson höfðu betur gegn Viðari Erni Kjartanssyni í Íslendingaslag Sarpsborg 08 og Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Sarpsborg vann leikinn, 3-0, en heimamenn skoruðu öll þrjú mörkin í seinni hálfleik. Þórarinn Ingi átti þátt í fyrsta markinu sem Sarpsborg skoraði á 62. mínútu.
Guðmundur fór af velli á 75. mínútu en Þórarinn og Viðar spiluðu báðir allan leikinn. Viðar búinn að vera sjóðheitur með Vålerenga í síðustu leikjum en tókst ekki að finna netmöskvana í kvöld.
Sarpsborg byrjar tímabilið vel en það er með átta stig í fimmta sæti deildarinnar eftir fimm umferðir. Liðið hélt sæti sínu í fyrra en það var þá nýliði í deildinni. Vålerenga er sæti neðar með stigi minna.
Pálmi Rafn Pálmason og félagar í Lilleström eru í 10. sæti deildarinnar með fimm stig eftir markalaust jafntefli á heimavelli gegn Álasundi í kvöld. Pálmi Rafn spilaði allan leikinn.
Sarpsborg í 5. sæti eftir sigur í Íslendingaslag
Tómas Þór Þórðarson skrifar
