Enska götublaðið The Sun hefur beðið Bastian Schweinsteiger afsökunar á fyrirsögn sem birtist á vefsíðu þess fyrr í vikunni.
Umrædd fyrirsögn, „You Schwein“, birtist eftir 1-1 jafntefli Manchester United og Bayern München í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Það var fyrri leikur liðanna í 8-liða úrslitum en Schweinsteiger skoraði mark Bayern og fékk svo að líta rauða spjaldið.
Forráðamenn Bayern brugðust illa við fyrirsögninni og annarri keimlíkri sem birtist á baksíðu Daily Mirror næsta dag (You Dirty Schwein). Brugðu þeir á það ráð að meina blaðamönnum frá þessum tveimur miðlum um aðgang á síðari leik liðanna sem fer fram á Allianz Arena í München á miðvikudaginn.
The Sun hefur nú beðist afsökunar en óvíst er hvort það nægi til að milda afstöðu Þjóðverjanna.
