Fótbolti

Modric: Við lærum aldrei af mistökum okkar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luka Modric, miðjumaður Real Madrid, var allt annað en kátur með frammistöðu spænska stórliðsins í gær er það tapaði fyrir Dortmund á útivelli, 2-0, í seinni leik liðanna í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Til allrar hamingju fyrir Real vann það fyrri leikinn, 3-0, á heimavelli sínum í Madríd og komst áfram, samanlagt 3-2.

Real Madrid á því enn möguleika á að vinna tíunda Evrópumeistaratitilinn en sá síðasti vannst í Glasgow fyrir fjórtán árum og finnst mönnum á Santiago Bernabéu biðin orðin alltof löng.

„Ég veit ekki hvað gerðist. Kannski vorum við svona kærulausir því við unnum fyrri leikinn 3-0 og héldum að þetta yrði eitthvað auðvelt,“ sagði svekktur við fjölmiðla eftir leikinn.

„Við þurfum að læra af þessum leik. Við segjumst alltaf þurfa læra af mistökum okkar en við gerum það aldrei,“ bætti hann við.

„Auðvitað er ég ánægður með að komast í undanúrslitin en við erum ekki kátir með hvernig við spiluðum, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Við megum ekki láta þetta koma fyrir aftur,“ sagði Luka Modric.

Þetta er fjórða árið í röð sem Real Madrid kemst í undanúrslit Meistaradeildarinnar en liðið hefur fallið úr keppni í undanúrslitum undanfarin þrjú ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×