Íslenski boltinn

Þorlákur Árnason nýr starfsmaður KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorlákur Árnason.
Þorlákur Árnason. Mynd/Daníel
Þorlákur Árnason, fyrrum þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar í kvennafótboltanum, er búinn að ráða sig hjá Knattspyrnusambandi Íslands en hann er nýr starfsmaður fræðsludeildar. Þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins.

Þorlákur hætti með Stjörnuliðið í haust en undir hans stjórn vann liðið þrjá titla á þremur árum og setti nýtt stigamet í sumar þegar liðið vann alla átján leiki sína í Pepsi-deild kvenna.

Þorlákur mun sinna hæfileikamótun ásamt því að vinna að stefnumótun fyrir landsliðin í samráði við fræðslustjóra, hæfileikanefnd, landsliðsnefndir og landsliðsþjálfara. Þorlákur hefur störf þann 1. febrúar næstkomandi.

Þorláki er jafnframt ætlað að halda utan um svæðisbundnar úrtaksæfingar, fylgjast með æfingum yngri flokka aðildarfélaga og vera í góðum tengslum við þjálfara yngri flokka um land allt.

Þorlákur er kunnugur störfum innan Knattspyrnusambandsins en hann hefur verið landsliðsþjálfari U17 karla síðan í árslok 2012 og var áður landsliðsþjálfari U17 kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×