Fastir pennar

Þingmaður fellur á prófinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Brynjar Níelsson alþingismaður lýsti því yfir í viðtali við Bítið á Bylgjunni hinn 16. desember að hann teldi að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu væri rangur en færði engin lögfræðileg rök fyrir þeirri afstöðu sinni.

„Mér finnst dómurinn rangur. Hann er lögfræðilega rangur. Ég er ekki sammála sakfellingunni, þetta gengur ekki upp. Umboðssvikaákvæðið er bara þannig að hegðun þeirra sem er upplýst í þessu máli uppfyllir ekki skilyrði þess að mínu mati," sagði Brynjar. Hann sagði að skilyrði fyrir markaðsmisnotkun væru heldur ekki uppfyllt.

Þegar ég hlustaði á Brynjar halda þessu fram bjóst ég við því að í kjölfarið fylgdi einhvers konar rökstuðningur fyrir þessari skoðun, en hann kom ekki. Þingmaðurinn, sem starfaði sem  hæstaréttarlögmaður um árabil áður en hann settist á þing, færði engin rök fyrir niðurstöðunni. Nema „af því bara“ rök. Slík rök eru ekki gild. Enn síður þegar menn í stöðu Brynjars eiga í hlut. Almenningur gerir meiri kröfur til manna í þessari stöðu en að þeir komist upp með „af því bara“ rök.

Við mat á sekt einstaklinga í sakamálum er einkum tvennt sem þarf að skoða. Annars vegar verður að vera hægt að heimfæra háttsemi ákærða undir það refsiákvæði sem ákært er fyrir. Hins vegar þarf ákæruvaldið að færa sönnur fyrir því að ákærði hafi í raun viðhaft þá háttsemi sem ákært er fyrir. Í þessu felst að ákveðið lögfræðilegt mat þarf að fara fram en slíkt er oft tíðum ekki einfalt og allra síst í jafn umfangsmiklu máli og í Al-Thani málinu. Í því máli kann vel að vera að rök hafi hnigið hvort tveggja að sekt og sýknu ákærðu. Á hinn bóginn er það hins vegar alltaf hið frjálsa sönnunarmat dómara sem ræður úrslitum á endanum, þ.e.a.s. dómari metur sekt ákærðu eftir að hafa hlýtt á allar skýrslutökur í málinu sem og málflutningsræður. Undirrituðum er ekki kunnugt um að Brynjar Níelsson hafi sótt eitt einasta þinghald í Al-Thani málinu og af þeim sökum sætir það nokkurri furðu að jafn reynslumikill lögmaður og Brynjar skuli telja sig vera þess umkominn að kveða upp dóm í málinu.

Sakborningar í Al-Thani máli voru sem kunnugt er ákærðir og sakfelldir fyrir tvíþætt ákæruatriði, þ.e umboðssvik og markaðsmisnotkun og hlutdeildarþátttöku í þessum sömu brotum. Núna eru umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga þannig að þrjú skilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo hægt sé að sakfella fyrir ákæru samkvæmt ákvæðinu. Ákærði þarf að hafa haft eiginlegt stöðuumboð þannig að annar maður eða lögaðili verði bundinn við ráðstöfun hans, hann þarf að fara út fyrir þetta umboð og með þeirri háttsemi þarf að skapast veruleg fjártjónshætta af athöfninni fyrir þann sem er bundinn af henni. Fjártjónshættan þarf að vera veruleg, einföld fjártjónshætta dugar ekki.

Ekki gerð krafa um tjón og brot telst fullframið við misnotkun aðstöðu

Þegar umboðssvik eru annars vegar þarf tjón ekki að hafa átt sér stað. Þannig skiptir í raun tal um „peningahringekju“ ekki neinu máli. Ekki er gerð krafa um tjón og umboðssvikabrotið í raun fullframið þegar misnotkun aðstöðu hefur átt sér stað. Jónatan Þórmundsson, prófessor emeritus við lagadeild HÍ, lýsir þessu svona: „Verknaðarlýsing 249. gr. hgl. miðast við, að umboðssvikaverknaður sé fullframinn við misnotkun aðstöðu. Nánar tiltekið er misnotkun yfirleitt fólgin í ólögmætri ráðstöfun fjárverðmæta, þ.m.t. undirritun skuldbindingar. Nægilegt er að hagsmunum annarra sé stefnt í hættu með skuldbindingu, endanlegt tjón þarf ekki að hafa hlotist af ráðstöfun geranda.“ (Þættir um auðgunarbrot, bls. 224).

Af framansögðu virtu er ljóst að brot getur verið fullframið við undirritun lánasamnings, lánareglur tiltekins fjármálafyrirtækis voru brotnar og sönnun fyrir því sé komin fram sem hafin sé yfir skynsamlegan vafa og að veruleg fjártjónshætta hafi verið þessu samfara. Þessi þrjú efnisskilyrði þurfa að koma fram svo hægt að sé að sakfella fyrir umboðssvikin.

Brynjar hefur kannski ekki lesið dóm Hæstaréttar í máli nr. 442/2011 frá 7. júní 2012, svokölluðu Exeter-máli, en þar voru sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Byrs sparisjóðs sakfelldir fyrir umboðssvik og dæmdir í fjögurra og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi fyrir ábyrgðarlausar lánveitingar án trygginga. Þar voru lánareglur Byrs taldar brotnar rétt eins og í Al-Thani málinu. Það var reyndar grundvallar munur á því máli og Al-Thani málinu því í Exeter-málinu högnuðust ákærðu sjálfir á kostnað sparisjóðsins með broti sínu þegar þeir fóru út fyrir umboð sitt með lánveitingum til Exeter Holdings.

Brynjar las ekki dóminn

Þingmaðurinn lét sér ekki duga að mæta í útvarpsþátt til að gagnrýna dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, án þess að færa fyrir því nein rök. Hann birti greinarsmælki um Al-Thani dóminn áður en hann kom í framangreint útvarpsviðtal. Hann birti „grein“ sína á Pressunni kl. 16:30 sama dag og dómurinn var kveðinn upp hinn 12. desember. Dómurinn var kveðinn upp kl. 14 en birtist ekki á vef Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr en eftir kl. 15:50 sama dag. Þess ber að geta að dómurinn er 97 blaðsíður en 120 blaðsíður ef texti dómsins er afritaður í Word í 12 punkta letri. Að framansögðu virtu er útilokað að þingmaðurinn hafi lesið dóminn áður en hann birti greinarsmælkið á Pressunni. Nema hann búi yfir kunnáttu í yfirnáttúrulegu hraðlæsi af áður óþekktu tagi.

Þingmaðurinn ætti að taka sér meiri tíma til að fara yfir hlutina áður en hann tjáir sig. Því fullyrðing án röksemda er innantóm og í fjaðurvigt. Þingmenn vilja ekki vera í fjaðurvigt því þá tapa þeir trúverðugleika og er að lokum refsað í kosningum. Ef frammistaða þingmannsins hefði verið jafn máttlaus á prófi í refsirétti og í umræddu útvarpsviðtali þá hefði hann fallið á prófinu.

Hér skal ekki fullyrt hvort niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu sé rétt eða röng, enda ekki höfundar að kveða upp úr um slíkt. Að framan var rakið að grundvallar munur væri á Al-Thani máli og Exeter-máli því í hinu síðarnenda nutu ákærðu persónulegs fjárvinnings af umboðssvikunum. Hins vegar var annað veigamikið ákæruatriði undir í Al-Thani máli, markaðsmisnotkun, sem getur einnig varðað allt að sex ára fangelsi skv. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Ólíkt umboðssvikum dugir hins vegar gáleysi þar til sakfellingar. Þannig er hægt að sakfella fyrir fullframið brot án þess að ásetningur hafi staðið til þess.

Brynjar Níelsson lofaði í áðurnefndum útvarpsþætti að hann ætlaði að skrifa lögfræðilega úttekt um niðurstöðu héraðsdóms í Al-Thani málinu. Ég bíð spenntur eftir þeirri úttekt því ég vil fá að sjá rökin fyrir því hvers vegna dómurinn er rangur. Þingmaðurinn getur ennþá komist upp úr fjaðurvigtinni.

Höfundur er lögfræðingur mag.jur frá Háskóla Íslands og starfar sem fréttamaður






×