Skoðun

Barnaleikhús

Charlotte Bøving skrifar
Ég var á Grímuhátíðinni um daginn. Kvöldið var um margt vel lukkað, jafnvel þótt ég væri ekki alltaf sammála vali á verðlaunahöfum. En þessi pistill á ekki að fjalla um það. Hann á að fjalla um nokkuð sem ég hef mun meiri áhyggjur af: Flokkurinn um bestu barnasýningu ársins FÉLL NIÐUR í ár. Leikhúsin höfðu einfaldlega ekki sett á svið fleiri en tvær barnasýningar þetta leikárið. Báðar í Þjóðleikhúsinu – og alveg nýjar eru þær ekki, við þekkjum þær vel: Dýrin í Hálsaskógi og Karíus og Baktus. (Mary Poppins var ekki flokkuð sem barnasýning).

Það voru hinsvegar heilar 62 fullorðins-frumsýningar á leikárinu. Hvers vegna þetta ójafnvægi?

Er það vegna þess að það er enginn heiður – peningar – forvitni eða metnaður til þess að framleiða barnasýningar?

Eru leikhúsin mótfallin? Eru það listamennirnir: höfundar, leikstjórar, leikarar sem eru til vandræða? Er það ríkissjóður eða borgin sem ekki styðja barnamenningu í leikhúsunum? Eða eru það áhorfendur sem er vandamálið? Þora fullorðnir áhorfendur, sem fara með börn í leikhús, að velja ný verk og óreynd fyrir litlu dúllurnar sínar, eða eru þeir íhaldssamir og vilja bara endurtekningar? Vegna þess að það eru endursýningar sem stóru leikhúsin velja yfirleitt að setja á svið.

Mér þykir vanta nýsköpun í barnaleiksýningum hér á landi. Leikhús fyrir börn sem leikur sér að formi og innihaldi. Leikhús sem speglar heim barnanna, eða ögrar sýn þeirra á heiminn og mannfólkið. Ævintýralegt og tilraunakennt leikhús fyrir börn. Það er til, en það er fyrirferðarlítið og sjaldgæft. Það er t.d. ekkert slíkt fyrir 10 – 11 – 12 – 13 – 14 – 15 – 16 – 17 – 18 ára börn (fyrir utan það sem þau setja sjálf á svið). Ekkert sem endurspeglar raunveruleika þeirra.

Splunkuný barnaleiksýning lítur dagsins ljós í Kúlunni í september: Hættuför í Huliðsdal. Ég tengist þessari sýningu ekki neitt. Mér þykir bara frábært að það sé líka verið að skrifa ny leikrit fyrir börn.

Þau eru líka fólk...




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×