Líf útlendinga Charlotte Böving skrifar 22. apríl 2013 07:00 Ég var einmitt að ljúka við æfingaferli sem leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og núna, eftir velheppnaða frumsýningu, er ég byrjuð á íslenskunámskeiði hjá Mími símenntun. Mér finnst íslenskunám mitt hafa staðnað. Þess vegna skráði ég mig á þetta námskeið á fimmta stigi í íslensku fyrir útlendinga. Á námskeiðinu er fólk alls staðar að úr heiminum: Eþíópíu, Kákasus, Rússlandi, Japan, Taílandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Wales, Suður-Afríku, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku o.s.frv. Ég hef farið á svona námskeið áður og mér finnst þau alveg mögnuð. Það er að vísu ekki tungumálanámið sjálft sem heillar mig svona, heldur er það fjölbreytileiki fólks, tungumála og menninga sem mætast við þessar aðstæður. Við sitjum hvert við okkar borð og svitnum yfir íslenskri málfræði eða íslenskum framburði. Við beygjum veikar og sterkar sagnir: vinna – vann – unnum – unnið, fljúga – flaug – flugum – flogið. Það var enginn sem sagði að þetta yrði auðvelt, svo við fallbeygjum snöggvast nafnið Egill – Egil – Agli – Egils. Hver er þessi Agli? Ég sit og hlusta á alls konar hreim og finn ákveðna auðmýkt gagnvart öllu þessu „framandi“ fólki. Við eigum líka að læra að skrifa á íslensku og fáum spurningar eins og: Hvernig leið þér fyrst þegar þú komst til Íslands? Hvernig líður þér á Íslandi núna? Hvers vegna fluttir þú til Íslands? Ég kom til Íslands í fyrsta skipti árið 1999 og veturinn var langur og kaldur. Hann byrjaði í október og honum lauk ekki fyrr en langt var liðið á mars. Allir sögðu að þetta væri óvenju kaldur vetur. Ég kinkaði bara kolli og hugsaði mitt. Ég skildi ekki tungumálið og það tók tvö ár áður en ég var farin að geta sett saman nokkurn veginn skiljanlegar setningar. Ég var ekki í vinnu, átti ekki vini, engar rætur. Ég var fyrst og fremst kona mannsins míns og mamma litlu stelpunnar okkar. Í dag er sú litla stelpa fjórtán ára. Í dag skil ég íslensku og ég tala hana nokkurn veginn. Í dag á ég fjölskyldu og vini – ekki bara vini mannsins míns, heldur mína eigin vini. Og ég var að frumsýna leikrit sem ég leikstýrði í Þjóðleikhúsinu. Ég er þakklát, en ég velti því líka fyrir mér hvort maðurinn eða konan frá Eþíópíu eða Wales fái sömu möguleika. Ég vona það. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Charlotte Böving Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Strætó fær sérakrein á Kringlumýrarbraut Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun
Ég var einmitt að ljúka við æfingaferli sem leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og núna, eftir velheppnaða frumsýningu, er ég byrjuð á íslenskunámskeiði hjá Mími símenntun. Mér finnst íslenskunám mitt hafa staðnað. Þess vegna skráði ég mig á þetta námskeið á fimmta stigi í íslensku fyrir útlendinga. Á námskeiðinu er fólk alls staðar að úr heiminum: Eþíópíu, Kákasus, Rússlandi, Japan, Taílandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Wales, Suður-Afríku, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku o.s.frv. Ég hef farið á svona námskeið áður og mér finnst þau alveg mögnuð. Það er að vísu ekki tungumálanámið sjálft sem heillar mig svona, heldur er það fjölbreytileiki fólks, tungumála og menninga sem mætast við þessar aðstæður. Við sitjum hvert við okkar borð og svitnum yfir íslenskri málfræði eða íslenskum framburði. Við beygjum veikar og sterkar sagnir: vinna – vann – unnum – unnið, fljúga – flaug – flugum – flogið. Það var enginn sem sagði að þetta yrði auðvelt, svo við fallbeygjum snöggvast nafnið Egill – Egil – Agli – Egils. Hver er þessi Agli? Ég sit og hlusta á alls konar hreim og finn ákveðna auðmýkt gagnvart öllu þessu „framandi“ fólki. Við eigum líka að læra að skrifa á íslensku og fáum spurningar eins og: Hvernig leið þér fyrst þegar þú komst til Íslands? Hvernig líður þér á Íslandi núna? Hvers vegna fluttir þú til Íslands? Ég kom til Íslands í fyrsta skipti árið 1999 og veturinn var langur og kaldur. Hann byrjaði í október og honum lauk ekki fyrr en langt var liðið á mars. Allir sögðu að þetta væri óvenju kaldur vetur. Ég kinkaði bara kolli og hugsaði mitt. Ég skildi ekki tungumálið og það tók tvö ár áður en ég var farin að geta sett saman nokkurn veginn skiljanlegar setningar. Ég var ekki í vinnu, átti ekki vini, engar rætur. Ég var fyrst og fremst kona mannsins míns og mamma litlu stelpunnar okkar. Í dag er sú litla stelpa fjórtán ára. Í dag skil ég íslensku og ég tala hana nokkurn veginn. Í dag á ég fjölskyldu og vini – ekki bara vini mannsins míns, heldur mína eigin vini. Og ég var að frumsýna leikrit sem ég leikstýrði í Þjóðleikhúsinu. Ég er þakklát, en ég velti því líka fyrir mér hvort maðurinn eða konan frá Eþíópíu eða Wales fái sömu möguleika. Ég vona það.