Passaðu þig! Charlotte Böving skrifar 28. janúar 2013 06:00 Passaðu þig!," kallaði ég á eftir yngstu dóttur minni um daginn, þar sem hún var komin hátt upp í tré úti í garði. „Ég er að passa mig," kallaði hún á móti. „Auðvitað er hún að passa sig," hugsaði ég. „Af hverju ætti hún ekki að passa sig? Hún er einmitt að æfa samhæfingu handa og fóta, svo hún detti ekki niður." Ég hætti að hrópa, en fór til öryggis undir tréð, tilbúin að grípa hana ef hún skyldi missa takið. Þessi tilhneiging, að kalla á eftir krökkunum að þau eigi að passa sig, er raunar mjög algeng meðal foreldra og annars fullorðins fólks þegar börnin róla sér hátt, klifra upp í tré eða ganga jafnvægisgang eftir brún. Allt eru þetta hlutir sem náttúrulegt er fyrir þroska barns að það prófi og æfi sig í: Að finna og upplifa eigin mörk, en líka að uppgötva getu sína og þor. Hvers vegna hrópum við þá „passaðu þig"? Við erum auðvitað hrædd um að barnið detti og meiði sig og það er ábyrgð okkar að koma í veg fyrir slys. En hjálpar eitthvað að garga „PASSAÐU ÞIG!"? Er það ekki bara orðið eitthvert svona sjálfkrafa hróp, sem við hugsum ekki einu sinni út í? Í raun erum við að segja: „Ekki ögra getu þinni, því ég hef ekki fullt traust á því að þú ráðir við það án þess að slasa þig." Getur verið að við með þessu móti sendum okkar eigin kvíða yfir á barnið? Þannig að barnið þarf ekki aðeins að einbeita sér að því að halda jafnvægi og setja fæturna á rétta staði heldur líka að veita yfirfærðum kvíða og vantrausti okkar athygli? Mig langar að enda þennan pistil á stuttu en mikilvægu samtali milli Ronju ræningjadóttur og pabba hennar: „Og varaðu þig að detta ekki í ána," sagði Matthías. „Hvað á ég að gera ef ég dett í ána," spurði Ronja. „Synda," sagði Matthías. „Gott og vel," sagði Ronja. „Og varaðu þig svo að detta ekki niður í Helvítisgjána", sagði Matthías. „Hvað á ég að gera ef ég dett niður í Helvítisgjána," spurði Ronja. „Þá gerir þú ekkert framar," sagði Matthías. „Gott og vel, er það eitthvað annað?" „Já, það veit hamingjan, en þú kemst að því smám saman. Farðu nú." Og næstu daga á eftir gerði Ronja ekkert annað en að vara sig á því sem var hættulegt og æfa sig að vera ekki hrædd. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Charlotte Böving Mest lesið Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun Furðuleg réttlæting á hækkun verðtryggðra vaxta Marinó G. Njálsson Skoðun Ísland og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarðhita og alþjóðlegt samstarf Ester Halldórsdóttir Skoðun Kosningaloforðið sem gleymdist? Þorsteinn Siglaugsson Skoðun Vaxtahækkanir og brotið traust - hver ber ábyrgð? Sandra B. Franks Skoðun Raforka er ekki eina orkan! Dagur Helgason Skoðun Kjósum á næsta kjörtímabili Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun
Passaðu þig!," kallaði ég á eftir yngstu dóttur minni um daginn, þar sem hún var komin hátt upp í tré úti í garði. „Ég er að passa mig," kallaði hún á móti. „Auðvitað er hún að passa sig," hugsaði ég. „Af hverju ætti hún ekki að passa sig? Hún er einmitt að æfa samhæfingu handa og fóta, svo hún detti ekki niður." Ég hætti að hrópa, en fór til öryggis undir tréð, tilbúin að grípa hana ef hún skyldi missa takið. Þessi tilhneiging, að kalla á eftir krökkunum að þau eigi að passa sig, er raunar mjög algeng meðal foreldra og annars fullorðins fólks þegar börnin róla sér hátt, klifra upp í tré eða ganga jafnvægisgang eftir brún. Allt eru þetta hlutir sem náttúrulegt er fyrir þroska barns að það prófi og æfi sig í: Að finna og upplifa eigin mörk, en líka að uppgötva getu sína og þor. Hvers vegna hrópum við þá „passaðu þig"? Við erum auðvitað hrædd um að barnið detti og meiði sig og það er ábyrgð okkar að koma í veg fyrir slys. En hjálpar eitthvað að garga „PASSAÐU ÞIG!"? Er það ekki bara orðið eitthvert svona sjálfkrafa hróp, sem við hugsum ekki einu sinni út í? Í raun erum við að segja: „Ekki ögra getu þinni, því ég hef ekki fullt traust á því að þú ráðir við það án þess að slasa þig." Getur verið að við með þessu móti sendum okkar eigin kvíða yfir á barnið? Þannig að barnið þarf ekki aðeins að einbeita sér að því að halda jafnvægi og setja fæturna á rétta staði heldur líka að veita yfirfærðum kvíða og vantrausti okkar athygli? Mig langar að enda þennan pistil á stuttu en mikilvægu samtali milli Ronju ræningjadóttur og pabba hennar: „Og varaðu þig að detta ekki í ána," sagði Matthías. „Hvað á ég að gera ef ég dett í ána," spurði Ronja. „Synda," sagði Matthías. „Gott og vel," sagði Ronja. „Og varaðu þig svo að detta ekki niður í Helvítisgjána", sagði Matthías. „Hvað á ég að gera ef ég dett niður í Helvítisgjána," spurði Ronja. „Þá gerir þú ekkert framar," sagði Matthías. „Gott og vel, er það eitthvað annað?" „Já, það veit hamingjan, en þú kemst að því smám saman. Farðu nú." Og næstu daga á eftir gerði Ronja ekkert annað en að vara sig á því sem var hættulegt og æfa sig að vera ekki hrædd.
Ísland og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarðhita og alþjóðlegt samstarf Ester Halldórsdóttir Skoðun
Ísland og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarðhita og alþjóðlegt samstarf Ester Halldórsdóttir Skoðun