Django Unchained gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna tveimur árum fyrir borgarastríðið og segir frá vináttu þrælsins Django og þýska hausaveiðarans og fyrrum tannlæknisins King Schultz. Tannlæknirinn hefur uppi á Django í von um að hann aðstoði sig við leitina að eftirlýstum glæpamönnum sem kallast Brittle-bræður. Django hafði áður orðið fyrir barðinu á þeim bræðrum og þekkir þá því í sjón, nokkuð sem Schultz gerir ekki. Schultz kaupir Django með því loforði að hann muni öðlast frelsi þegar Brittle-bræðurnir eru allir.
Þegar Django hefur öðlast frelsi sitt slæst hann í för með Schultz með því skilyrði að þegar vetri lýkur munu þeir hætta hausaveiðunum um stund og hafa uppi á eiginkonu Djangos sem seld var í þrældóm til alræmds þrælahaldara að nafni Calvin J. Candie.

Leikstjórn og handritsskrif voru í höndum Quentins Tarantino sem talaði um myndina fyrst í viðtali við The Daily Telegraph árið 2007. "Mig langar að búa til kvikmyndir sem gera hræðilega sögu Bandaríkjanna að umfjöllunarefni sínu, en mig langar að gera þær í anda spagettívestranna. Ég vil gera mynd sem fellur inn í ákveðna kvikmyndagrein en tekur um leið á öllu því sem Bandaríkin hafa ekki tekist á við vegna skammar," sagði Tarantino.


