Fótbolti

Mörk Ronaldo og Bale dugðu ekki til sigurs

Ronaldo fagnar marki sínu með Karim Benzema.
Ronaldo fagnar marki sínu með Karim Benzema. vísir/getty
Real Madrid og Juventus gerðu stórmeistarajafntefli, 2-2, í stórskemmtilegum knattspyrnuleik í Tórínó í kvöld. Tveir dýrustu knattspyrnumenn sögunnar skoruðu fyrir Real en það dugði ekki til.

Juventus komst yfir rétt fyrir hlé. Raphael Varane braut þá klaufalega á landa sínum, Paul Pogba. Vidal steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Juve var sterkara liðið en varð alltaf að hafa varann á gegn Real. Enda kom á daginn að augnablikskæruleysi varð þess valdandi að Real jafnaði leikinn.

Madridingar unnu boltann á vallarhelmingi Juve og brunuðu upp. Benzema lagði boltann í teiginn á Ronaldo og hann kláraði færið vel að venju.

Fjórtánda Meistaradeildarmark Ronaldo á árinu en það er met. Real var þess utan að skora mark á útivelli í tuttugasta leiknum í röð og það er einnig met.

Markið kom Real á bragðið og dýrasti leikmaður heims, Gareth Bale, kom þeim yfir nokkrum mínútum síðar. Bale einn á móti einum. Lék á varnarmanninn og skoraði með góðu skoti. Fyrsta mark Bale fyrir Real í Meistaradeildinni.

Juventus neitaði að gefast upp og Llorente jafnaði leikinn þegar 25 mínútur voru eftir af leiknum. Fínt skallamark. Laumaðist bakvið Varane og stangaði boltann í netið.

Real með tíu stig á toppi riðilsins en Juventus aðeins með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×