Fernando Torres var í byrjunarliði Chelsea í hundraðasta skiptið í kvöld og hélt upp á það með því að skora tvö mörk í 3-0 útisigri á þýska liðinu Schalke 04 í E-riðli Meistaradeildarinnar í fótbolta.
Schalke 04 var með fullt hús og hreint mark eftir tvær fyrstu umferðirnar en Chelsea-menn tóku toppsæti riðilsins af Þjóðverjunum með þessum sigri.
Fernando Torres var búinn að koma liði sínu í 1-0 eftir fimm mínútna leik þegar hann skoraði með skalla eftir að Branislav Ivanovic skallaði áfram hornspyrnu Frank Lampard.
Chelsea fékk draumabyrjun í leiknum en náði ekki að fylgja því efir og leikmenn Jose Mourinho gengu fegnir til hálfleiks ennþá 1-0 yfir.
Torres var nálægt því að byrja seinni hálfleikinn alveg eins og þann fyrri þegar hann átti skalla í slá á 51. mínútu eftir aukaspyrnu frá Frank Lampard.
Fernando Torres bætti síðan við sínu öðru marki á 68. mínútu þegar hann skoraði auðveldlega eftir skyndisókn og undirbúning þeirra Oscar og Eden Hazard.
Eden Hazard innsiglaði sigurinn á 87. mínútu eftir sendingu frá Ramires og Chelsea hefur nú unnið tvo síðustu leiki sína í Meistaradeildinni með markatölunni 7-0.
Tvö mörk frá Torres og Chelsea upp í toppsæti riðsilsins
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
